145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvesturkjördæmi.

201. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna vegna þessarar umræðu. Vandi þessara skóla er, eins og hér hefur komið fram, að of fáir nemendur stunda þar nám og stærð þessara stofnana gerir þeim mjög erfitt um vik að standast þær kröfur sem gerðar eru í lögum um háskóla. Það sýnir sig í gæðaúttektum sem unnar hafa verið, menn hafa tekið eftir umræðunni um Háskólann á Bifröst og Háskólann á Hólum, þó að þar séu mismunandi mál undir. En það er ekki þar með sagt að núverandi ástand sé vandamálalaust. Þess vegna vildi ég skoða þann möguleika sem ég hef lýst áður sem snýr að samvinnu á milli skólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Það held ég að hefði verið til eflingar starfseminni uppi í Borgarfirði, ég hafði þá trú þá og hef enn. En heima í héraði og hér á þingi finn ég gjörla hver staðan er. Það hefði kallað á lagabreytingar og það var sannfæring mín að ekki væri meiri hluti fyrir þeim hér á þingi.

Þegar kemur að þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsti áðan þá er ég hjartanlega sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur hvað það varðar að við hljótum að horfa til hinna akademísku sjónarmiða, þau veita leiðsögn. En það segir sig sjálft að við erum alltaf í mjög sérkennilegri stöðu þegar við erum með stofnanir með svona fámenna nemendahópa sem þurfa að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til miklu stærri háskóla. Ég er ekki sannfærður um að í þeim rannsóknum sem menn hafa gert varðandi stöðu minni háskóla erlendis að þar beri menn þá endilega saman við svo litlar skólastofnanir eins og þær sem hér um ræðir. Það má heldur ekki gleyma því að verulegur hluti þeirra nemenda sem þó er í þessum stofnunum er einmitt í fjarnámi. Það gerir allt skólasamfélagið veikara þegar svona fáir nemendur eru á (Forseti hringir.) staðnum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að að sjálfsögðu hljóta hin faglegu rök að ráða för. En það er ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi þessara stofnana heima í héraði.