145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir þetta stutta andsvar við ræðu mína um málið sem við erum að fjalla um. Til að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir til mín tel ég öll þau atriði sem hún telur upp vera í höndum þessarar nefndar. Ég ætla að leyfa mér að hafa enga skoðun á því hvernig nefndin er skipuð á þessi stigi, hvort hún er skipuð akkúrat eins og þarna, þremur mönnum, með lögfræðing sem formann og án siðfræðings í nefndinni. En ég hvet auðvitað nefndina til að fara í gegnum það og þar munu umsagnaraðilar segja álit sitt. Þetta er eitt af þeim atriðum sem alltaf koma fram.

Svo ég svari hv. þingmanni beint finnst mér þetta vera grundvallaratriði. Það var það sem ég vitnaði í, prófessorinn sem ég fjallaði um áðan. Með nefndinni, þar sem farið er yfir þessi atriði og rætt við staðgöngumóður og væntanlega foreldra og allt það, er verið að girða fyrir öll atriðin. Það er sá faglegi undirbúningur sem ég held að sé miklu auðveldara fyrir okkur að fara í gegnum vegna fámennis heldur en er í stóru löndunum.

Ég vona að þetta svari þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín.