145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mér fannst hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sem nú situr hér hæstvirtur á forsetastóli segja áðan að einhver okkar hefðu verið að tala um að loforð hefðu verið svikin. Ég held að enginn talað um það nema kannski hugsanlega þingmenn Framsóknarflokksins í störfum þingsins fyrr í dag, þeir eru mjög óþreyjufullir og telja sig svikna um aðgerðir í verðtryggingarmálum. Við hin höfum verið að kvarta yfir því að hæstv. forsætisráðherra er ekki tilbúinn að koma hingað til að ræða um afnám verðtryggingar, hann sem er verkstjóri, forsætisráðherra er verkstjóri í ríkisstjórn sem ætlar að afnema verðtrygginguna og við viljum ræða um það við hann. Síðan verða hv. þingmenn Framsóknarflokksins náttúrlega að eiga það við flokksformann sinn og forsætisráðherra af hverju (Forseti hringir.) þetta stóra kosningamál þeirra er svikið. Þau ræða um það við hann.