145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég hef engar slíkar skipanir fengið frá nokkrum einasta manni um þetta mál og hefði sjálfsagt ekki tekið þeim skipunum vel né orðið við þeim. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál hafi fengið sérstaka flýtimeðferð og þyki honum nefndarálitið rýrt get ekki fellt neina dóma um það. Þetta nefndarálit byggir að sjálfsögðu á því nefndaráliti, og það kom skýrt fram í máli mínu, sem lagt var fram hér að lokinni umtalsverðri umræðu og meðferð málsins á síðasta þingi. Það er ekki rétt að málið hafi borist nefndinni fyrir hálfum mánuði síðan. Það er lengra síðan, málið fór í umsagnarferli til allra þeirra aðila sem var talið að þyrfti að fá umsögn frá, allra þeirra sem höfðu fengið að veita umsögn á síðasta þingi. Allir fengu hefðbundin tíma til að veita umsögn, þrjár vikur. Það var því ekkert óhefðbundið.

Síðan hefur nefndin haldið nokkra fundi um málið og farið yfir það og orðið hefur verið við ítrekuðum beiðnum um að fá gesti. Ég frábið mér því að hér sé talað um einhverja flýtimeðferð. Það er ekkert sem styður það. Hins vegar hef ég ekki legið á því að það eru skiptar skoðanir í nefndinni. Það eru þingmenn sem telja málið ekki gott mál, vilja ekki sjá það afgreitt, en í nefndinni hefur verið ágætissamstaða um að ljúka málinu og við höfum unnið að því án þess að vera með sérstaka flýtimeðferð í huga. Við höfum gert þetta eins og við höfum talið ástæðu til en auðvitað, líkt og þingmaðurinn þekkir með meiri þingreynslu en ég, hefur skoðunin núna að einhverju leyti byggt á því að málið fékk mjög mikla meðhöndlun og meðferð, eins og ég sagði áðan. Það hefur verið rætt á tólf fundum utanríkismálanefndar nú þegar. Það ber þess að sjálfsögðu merki og bæði nefndarálitin bera þess merki að málið hefur áður verið til umsagnar og umfjöllunar hér. Og allar umsagnir sem bárust voru um það að ekki væri um að ræða neinar viðbótarathugasemdir frá þeim er veittu umsagnir og umsagnaraðilar vísuðu allir í fyrri umsagnir sínar.