145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Mér finnst sami tónninn í ræðunni og hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Hér er mikil tortryggni á ferðinni. Það birtist mjög vel í ræðu þingmannsins og ýmsum spurningum er velt upp. Hér er kallað eftir sjónarmiðum aðila sem sátu í Indefence-hópnum og þingmaðurinn telur að þau rök séu ekki komin fram. Þau eru löngu komin fram og það er löngu búið að útskýra það og ég hef ekki tíma til þess að gera það hér í einnar mínútu andsvari.

Þess ber líka að geta að hér er talað mjög mikið um að við séum að afsala okkur dómsvaldi. Svo er alls ekki því að báðir aðilar falla frá málssóknarrétti, bæði íslenska ríkið og kröfuhafar. Þess vegna eru það hreinar blekkingar, sem þingmenn stjórnarandstöðunnar fara fram með.

Mig langar til að spyrja þingmanninn hvað hún á við hér í nefndarálitinu á bls. 2:

„Breyting á skilmálum láns LBI er talin til tekna þó að í raun sé frekar um skriffinnsku að ræða en raunverulega úrlausn.“