145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er kannski rétt að vara ákveðna aðila í salnum við að ég mun líklega ræða dálítið um samninga milli gömlu og nýju bankanna á sínum tíma, erlenda kröfuhafa og jafnvel nefna Icesave þannig að ég bið þá sem þurfa á róandi að halda að drífa sig fram og taka það núna þannig að í staðinn fyrir það megi þeir frekar við bindast.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það er hvimleitt hvernig þessi ríkisstjórn hefur nokkrum sinnum í stórmálum eins og skuldaniðurfærslumálinu mikla og núna í samskiptum við kröfuhafa og undirbúning á slita- og þrotabúum gengið fram úr öllu hófi í skrautáróðurssýningum pólitískum málstað sínum til framdráttar, á kostnað almennings í landinu því skattfé er væntanlega notað til að borga reikningana, í staðinn fyrir að finna til skyldunnar og reyna að reiða fram eins hlutlæg og trúverðug gögn og mögulegt er, Alþingi og almenningi til upplýsingar. Það hefur því miður ekki verið gert. Skrautsýningin í Hörpunni í vor var náttúrlega með endemum þegar sýndar voru yfir 70 myndir á vegg um ágæti stöðugleikaskattsins, minnt á mögulega nauðasamninga og stöðugleikaframlög á einni glæru, hún var látin hverfa hratt niður aftur, þegar í ljós hefur komið og gerðist strax þá þann dag að ríkisstjórnin var að undirbúa allt aðra leið með kröfuhöfunum. Sama dag og skrautsýningin var haldin í Hörpu komu á vef fjármálaráðuneytisins tillögur búanna þriggja um stöðugleikaframlög og fylgdi með að framkvæmdanefnd um afnám hafta hefði metið tilboðin og teldi þau fullnægjandi. Ekki gerðist það á nokkrum sekúndum eftir að blaðamannafundinum lauk að þetta varð allt saman til, flóknir lagatextar á ensku, var það? Og hvenær hafði framkvæmdanefndin þá tíma til að meta tilboðin o.s.frv.? Hér hafa hlutirnir ekki verið lagðir upp í samræmi við veruleikann sem á bak við er, um samskipti stjórnvalda við kröfuhafana, samningaviðræður, samningaumleitanir þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur fundið upp nýtt hugtak til að þurfa ekki að gangast við samningum eða slíkum samskiptum, það heitir lifandi samtal. Lifandi samtal hefur fært ríkisstjórnina í þessa átt.

Nú er það þannig að uppleggið er að mörgu leyti skynsamlega hugsað og sá sem hér talar hefur ekki breytt um skoðun á því. Það er að hafa stóra kylfu á lofti sem er stöðugleikaskatturinn og er þannig úthugsaður og reiknaður að hann sjái fyrir krónuvanda búanna eins og hann geti ýtrastur orðið og taki hann í einu lagi og hreinsi hann upp. Hins vegar að menn gætu ef þeir svo kysu farið jafn gilda leið stöðugleikaframlaga sem væri jafn gild gagnvart því að hreinsa út krónuvandann og tryggja þar með að það hefði ekki neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð, stöðu þjóðarbúsins og lífskjörin í landinu eins og mjög tíðrætt var um. Þessu var lofað í vor. Því var haldið fram að um algerlega jafn gildar leiðir væri að ræða. En er það svo? Þar liggur vafinn. Þegar við rýnum betur í efnið sem framreitt er, og tala ég þá ekki um skrautsýningu ríkisstjórnarinnar heldur fyrst og fremst greinargerð Seðlabankans sem er besta gagnið sem við höfum í höndunum í dag til að byggja á, kemur annað í ljós. Seðlabankinn viðurkennir það sjálfur þegar megintextinn er lesinn, ekki samantektin, að í staðinn fyrir að hreinsa upp allan vandann upp á um 870 milljarða kr. brúttó, væntanlega rúmlega 700 milljarða kr. nettó þótt menn byndu eitthvað af fjármunum, þá er bönkunum nú samkvæmt stöðugleikaframlögunum ætlað að greiða 379 milljarða kr. í stöðugleikaframlög. Það er mikill munur þar á.

Stöðugleikaframlagaleiðinni er hins vegar núna talið ýmislegt til tekna sem má deila um eins og það að ríki og/eða Seðlabanki fái greidd upp víkjandi lán sín sem tveimur af þremur bönkunum voru veitt við stofnun þeirra á árinu 2009. En ríkið á þessi lán. Það er ekki að fá neitt sem það á ekki hvort sem er. Bankarnir munu skulda þetta áfram, en í staðinn fyrir að skulda ríkinu munu þeir skulda erlendum kröfuhöfum eða þeim sem halda á bréfunum sem kröfuhafarnir gefa út. Á þá að telja 74 milljarða uppgreiðslu þessara gjaldeyrislána þessari aðgerð til tekna? Hvers vegna? Eða þegar talað er um endurheimtur í eignasafni Seðlabanka Íslands sem hefðu auðvitað orðið miklar hvort sem er. Það er með slíkum aðferðum sem umfang þessa stöðugleikamáls eru blásin upp. Þau voru blásin gróflega upp með groddalegum ýkjum í kynningu ríkisstjórnarinnar og ég verð að segja, berandi þó mikla virðingu fyrir vinnu Seðlabankans, að mér finnst á köflum umdeilanlegt hvað Seðlabankinn telur þessari leið núna til tekna. Ég hef nefnt tvö dæmi, ég gæti nefnt það þriðja. Uppgjörið á bréfi nýja Landsbankans til gamla Landsbankans kemur þessu máli sem slíku sáralítið við nema að viðbótarsamkomulag sem gerir það mál aðeins handhægara fyrir nýja Landsbankann tengist þessu að vísu, því að gamli Landsbankinn fari í nauðasamning. En það er búið að semja um lengingu þess bréfs. Það er búið að borga upp B-bréfið og það er búið að borga stóra bréfið að verulegu leyti niður eða leggja frá fyrir því. Eftir standa af því ekki nema um 150 milljarðar nettó hvort sem er þannig að það er líka umdeilanlegt að telja það leiðinni til tekna.

Ég á erfitt með að finna haldbærar skýringar á þeim mikla mun sem væri á stöðugleikaskattsleiðinni annars vegar og því sem hér er á borðinu. Ef við tökum stöðugleikaskattsleiðina og meðhöndlum hana með sama hætti og stjórnvöld og að hluta til Seðlabankinn meðhöndla nauðasamningaleiðina þá ættum við væntanlega að bæta við stöðugleikaskattinn hlutum sem hér eru taldir aðgerðinni til tekna. Eigum við þá að bæta við stöðugleikaskattinn 74 milljarða uppgreiðslu á víkjandi lánum frá ríki og Seðlabanka til nýju bankanna? Er það ekki? Það er jafn réttmætt í því tilviki eins og hinu. Eigum við að bæta við stöðugleikaskattinn betri endurheimtum í eignasafni ESÍ? Það er væntanlega jafn réttmætt í því tilviki eins og hinu og þá er stöðugleikaskattsleiðin ekki lengur 863 milljarðar eða hvað það nú var brúttó, hún er komin yfir 1 þús. milljarða. Þá þurfum við aftur að skýra mismuninn út ef við meðhöndlum báðar leiðir með sambærilegum hætti. Það hefði auðvitað átt að gera og ég gagnrýni mjög harkalega að ekki skuli liggja fyrir vandaður talnalegur samanburður á þessum tveimur leiðum. Það er engin heimavinna og öðruvísi mér áður brá þegar fólkið emjaði hér á gagnsæi og skort á upplýsingum, sumt hvert.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem ég hef vaxandi áhyggjur af, það er hin breytta tímalína í þessu máli. Það sem var á margan hátt trúverðugt í vor ef við það hefði verið staðið var að okkur var lofað, okkur var sagt að áður en stöðugleikaframlögin yrðu greidd, áður en búin færu út sem í fyrsta lagi gat orðið upp úr áramótum, væri búið að bjóða upp aflandskrónurnar. Þar liggur 300 milljarða vandi, staða á íslensku þjóðarbúið í höndum erlendra aðila. Það var líka sagt að þá lægi fyrir áætlunin um hvenær og hvernig aðrir innlendir aðilar, almenningur, fyrirtæki, lífeyrissjóði losnuðu út úr höftunum. Nú er þetta ekki lengur svona. Nú eiga kröfuhafarnir samkvæmt þessari leið að fara út fyrstir og einir og seinna kemur að því og reynir á hitt hvernig gengur að bjóða upp aflandskrónurnar og losa um höftin fyrir aðra aðila. Í því dæmi er að minnsta kosti þannig þjarmað að einum aðila að það er ekki mjög notaleg framtíðarsýn. Ég hef séð greiðslujafnaðaryfirlit frá Seðlabanka Íslands til og með árinu 2023 þar sem lífeyrissjóðunum eru ætlaðir 10 milljarðar á ári út tímabilið. Og fari iðgjöld vaxandi á grundvelli SALEK-samkomulagsins á komandi árum og fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna verði enn þá meiri, þá eru þetta þröngir kostir, ekki bara fyrir lífeyrissjóðina og ávöxtun þeirra og áhættudreifingu heldur fyrir íslenska hagkerfið og hagstjórn hér í landinu. Það er ekki ávísun á neitt annað en bólu ef þessar hraðatakmarkanir á fjárfestingarmöguleikum lífeyrissjóðanna erlendis — sem eru auðvitað ekkert annað en fjármagnshöft sem hafa þá ekki verið afnumin — verða áfram við lýði næstu sjö, átta árin og það er mikið áhyggjuefni.

Segjum sem svo að eigendur aflandskróna meti stöðu þjóðarbúsins vera að vænkast mikið og eftir að slitabúin eru farin út úr hagkerfinu sem er auðvitað heilmikil hreingerning, ekki geri ég lítið úr því, að þeir telji ekkert sérstaklega spennandi að taka þátt í uppboðum og fara út á niðursettu gengi heldur segi: Nei, ég ætla bara að bíða með mína peninga inni í hagkerfinu, ég ætla að festa þá í langtímabréfum, ég ætla að fá á því ágæta ávöxtun og háa vexti. Ég ætla að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og umheimsins og mjólka síðan út tekjurnar mánaðarlega í formi vaxta. Þá skýst sá vandi inn í framtíðina og verður ekki hreinsaður út um leið. Þess vegna hefði að mörgu leyti verið langbest að byrja á uppboðum á aflandskrónunum. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert. Þau dóu út og ekkert gerðist í heil tvö ár á hennar vakt þrátt fyrir að ríkisstjórnin gat haft skoðun á málinu. Það er alveg ljóst að afnámsáætlun um gjaldeyrishöft er verkefni stjórnvalda og það eru stjórnvöld sem staðfesta hana þó að Seðlabankinn undirbúi vinnuna. Þannig var það 2011 og yrði aftur ef þessi ríkisstjórn kæmi einhvern tíma slíkri áætlun saman. Það hefur hún ekki gert. (Gripið fram í.) Það hefur hún ekki gert þó hún hafi lofað því eftir kosningar að hún mundi birtast strax í septemberbyrjun 2013, byggð á snilldarhugmyndum hæstv. forsætisráðherra sjálfs. Okkur var talin trú um það þá að þetta væri ekkert mál og yrði gert í einum hvelli. Það hefur ekki verið gert.

Segjum nú að þetta færi svona, að uppboðin á aflandskrónum yrðu ekki sérstaklega vel heppnuð og eigendurnir kysu að geyma fjármuni sína að mestu leyti hér inni í hagkerfinu á beit — það væru auðvitað bara ný vaxtamunarviðskipti. Þá færi kannski að þyngjast fyrir fæti að losa fjármagnshöftin að öllu leyti í framhaldinu því þá væri stærri hluti vandans geymdur. Seðlabankinn viðurkennir sjálfur að í stöðugleikaframlagaleiðinni sé hluti vandans geymdur en ekki gerður upp með þeim hætti sem ella væri. Það segir hann á nokkrum stöðum í sínum texta, t.d. segir hann á bls. 8 í greinargerð sinni að tvær leiðir séu ævinlega færar til að ráða við flæðisvanda: Að lækka kröfurnar eða lengja í þeim. Nauðasamningar og undanþágur á grundvelli stöðugleikaskila gera hvort tveggja, segir Seðlabankinn, og það er hárrétt.

Ég hef ekki nákvæma greiningu á því í eðli sínu hve stórum hluta hins eiginlega krónutöluvanda er skotið inn í framtíðina en augljóslega hluta af honum. Það er lengt í honum og það skýrir að hluta hinn mikla mun sem er á stöðugleikaskatti og nauðasamningum. Í staðinn fyrir að taka fyrir þessu öllu strax og hreinsa upp krónutöluvandann — það er misskilningur að mínu mati hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að það skapi vanda gagnvart eignum búanna sem verði til staðar áfram. Þeir þyrftu allar sínar innlendu eignir og meira til til að borga stöðugleikaskattinn þannig að sá vandi væri horfinn. Kannski var eini ágallinn á lögunum þar um, og ég nefndi það reyndar sem möguleika að heimila ríkinu eða skattinum að taka við eignunum á ýmsu formi, þar með talið hlutafé í bönkunum til greiðslu stöðugleikaskattsins. Það hefði verið hreinlegast, þeir hefðu mátt m.a. borga í bönkum og þá yrði ekkert vandamál með það, Skúli hefði tekið við því. Með þeirri aðferð hefði krónutöluvandinn að sönnu hreinsast algerlega upp. En báðar aðferðir hafa sína kosti og sína galla.

Ég hef reynt að glöggva mig á því hvort maður hafi nægilega góða þægindatilfinningu fyrir því að stöðugleikaframkvæmdin og fjárbindingin samkvæmt þessu sé nægjanleg til að okkur líði vel með það að greiðslujöfnuðinum sé borgið inn í framtíðina og við getum áhyggjulítið tekið næstu skref. Áhyggjur mínar hafa ekki sefast, því miður, og sumpart hafa þær aukist. Mér finnst of miklu af þessum vanda skutlað inn í framtíðina og mér finnst vera settar upp allt of naumar forsendur fyrir greiðslujöfnuðinn á komandi árum, til næstu sjö til tíu ára, þar með talið að lífeyrissjóðunum eru aðeins ætlaðir 10 milljarðar á ári í fjárfestingar erlendis. Það verður mjög erfitt fyrir okkur að vera í svo þröngu boxi.

Herra forseti. Ég hef notað mestan tíma minn í þetta mál sem eðlilegt væri en get svo sem ekki neitað því að það væri gaman að eiga hérna orðaskipti, kannski við síðara tækifæri, við t.d. talsmenn Framsóknarflokksins, þ.e. fótgönguliðadeild hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem kemur hér og er tiltölulega ein með sinn gamla málflutning um aumingjaskap fyrri ríkisstjórnar og linkind í garð kröfuhafa og afhendingu á bönkum og Icesave og allt það dót. Mér sýnist fækka í þeirri sveit. Aðallega eru eftir í henni hæstv. forsætisráðherra sjálfur, sem að vísu er eiginlega aldrei hér þannig að það reynir lítið á það, og síðan hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. (Gripið fram í.) Gjarnan er sagt að við höfum afhent bankana til erlendra kröfuhafa og reyndar kvartaði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir undan hvoru tveggja, í því tilviki sem ríkið fjármagnaði Landsbankann hefði það gefið út eitthvert bréf til gamla bankans sem hefði verið alveg ástæðulaust. Honum hefði eiginlega verið gefið það líka. Bíddu, þú getur ekki haft þetta á báða vegu. Veruleikinn er sá að það var auðvitað engum afhent neitt, engum var gefið neitt en það var heldur ekki stolið frá neinum. Það var reynt að gera þetta upp í samræmi við lög og reglur og stjórnarskrá (VigH: Rangt.) sem er þannig að ef meiri eignir voru fluttar yfir í nýju bankanna en sem nam skuldum þeirra hefði þurft að bæta þann mun, annað hefði verið þjófnaður. (Gripið fram í.) Misskilningur eða vanþekking þessara talsmanna Framsóknarflokksins, því ég tek fram að þetta á ekki við um alla framsóknarmenn, allra síst formann efnahags- og viðskiptanefndar, virðist vera fólgin í því að íslenska ríkið eða íslenskir lögaðilar hafi óvænt á árinu 2009 komist í aðstöðu til að stela verðmætum fram hjá lögum og stjórnarskrá. En það var bara ekki svoleiðis. Þetta var gert nákvæmlega í samræmi við lög, reglur og stjórnarskrá sem ver eignarréttinn, þar með talið lögvarðar kröfur kröfuhafa í bú til skipta. Ósköp einfalt mál.

Niðurstaða málsins er sú að ríkið kemur mjög vel frá þessum gjörningum og kemur út í fjárhagslegum plús og miklum plús ef við viljum taka Íslandsbanka með inn í það slengi, komi hann til okkar. Ætli það verði nú ekki þannig að þetta verði með betur heppnuðu róðrum ríkisins á undanförnum árum? Það skiptir ekki öllu máli. Það sem öllu máli skiptir og skipti á sínum tíma var að það tókst að koma nýju, starfhæfu og fullfjármögnuðu bankakerfi af stað strax innan ársins 2009 og efnahagsleg endurreisn Íslands gat hafist. Það var hið stóra í því máli og það tókst og þarf ekki að segja miklu meira um það.

Linkind við kröfuhafa, ganga erinda þeirra, taka afstöðu með þeim gegn almannahagsmunum á Íslandi og þjóðinni. Þetta segja þessir talsmenn Framsóknarflokksins enn alveg hispurslaust hér úr ræðustóli, hispurslaust. Færa engin rök fyrir málinu, enda eru þau ekki til. Rökin snúa ef eitthvað er öfugt og það mál hefur verið rifjað upp hér. (Gripið fram í.) Langstærsta og harkalegasta einstaka aðgerðin frá upphafi að frátöldum, kannski að slepptum neyðarlögunum sjálfum sem gerðu innstæður að forgangskröfum og gerðu það á kostnað almennra kröfuhafa í búin, var að taka allar eignir búanna inn fyrir gjaldeyrishöftin, enda er það að koma í ljós. Það eru þau lög frá 12. mars 2012 sem eiga heiðurinn af því að við erum núna í stöðu til þess að neyða kröfuhafana til að sættast á að afskrifa krónueignir sínar að öllu eða mestu leyti, vonandi. (Gripið fram í.) Svo skulum við velta fyrir okkur hvernig þeir stóðu að þeim málum.

Með öðrum orðum, herra forseti, sagan geymir staðreyndir um það að áburður, rógburður, endalausar landráðadylgjur hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, sem studdi framan af þá ríkisstjórn sem hann níðir meira en allar aðrar, eru ómagaorð án nokkurrar innstæðu og nokkurs rökstuðnings. (Gripið fram í.) Og nú vantar ekkert annað en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir komi hérna og hrópi: Icesave, þá væri þetta fullkomnað. (VigH: Icesave.)

Förum yfir Icesave. Hvernig er nú Icesave-málið að klárast? Það er að klárast með því að eignir gamla Landsbankans borga höfuðstólinn að fullu, 100% og par 100 milljarðar verða upp í almennar kröfur. Það er að klárast með því að tryggingarinnstæðusjóðurinn hefur samið við Breta og Hollendinga um að leggja alla sína peninga í umsýslukostnað og vexti þeirra, alla. Þá stæði nú ekki mikið eftir af Icesave 2 og ekki Icesave 1 ef út í það er farið nema eftir stæði vaxtakostnaður sem ætti (Forseti hringir.) að byrja að greiðast frá miðju ári 2016 og væntanlega væru sterk rök fyrir að endursemja um vegna lágs fjármagnskostnaðar Breta og Hollendinga allan tímann.