145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mikið og stórt þjóðhagsmál sem varðar hag þjóðarinnar til framtíðar. Það sem stendur upp úr í mínum huga eftir að hafa fylgst með umræðunni í dag er efinn. Það er ekki gott að vera með efa í brjósti sér um það í svona stóru máli hvort stjórnvöld hafi tekið rétta ákvörðun með því að velja stöðugleikaframlagið frekar en 39% skatt. Mér finnst það vera spurning sem liggur fyrir og er enn ósvarað eftir þessa umræðu. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að ráðherrar eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sjái ekki ástæðu til að vera við umræðuna og upplýsa og útskýra betur hvers vegna þeir telja þessa leið gagnast samfélaginu betur til að tryggja hinn svokallaða greiðslujöfnuð sem við viljum að verði til staðar þegar erlendir kröfuhafar fara út úr efnahagskerfinu með háar fjárhæðir sem geta, eins og nefnt var, verið allt að 500 milljarðar. Þetta eru ekki neinar smáupphæðir sem þarna eru á ferðinni og ekki skrýtið að menn óttist að almenningur í landinu, fyrirtæki, sitji áfram lokuð innan hafta og að stórir fjárfestar sem allir landsmenn eiga hlut í, lífeyrissjóðirnir, búi áfram við það að geta ekki ávaxtað fjármuni sína fyrir félagsmenn.

Það er grafalvarlegt að hafa ekki vissu fyrir því að þetta sé sá liður í losun hafta sem menn hafa verið að vinna að lengi. Ég er ekki sannfærð um stöðugleikaframlagið eins og það er útskýrt hér, sem er að stórum hluta í formi eigna bankanna hérna, eins og Íslandsbanka og Arion banka, og í raun og veru ekki mjög háar upphæðir sem verið er að greiða í beinhörðum peningum í þeim efnum. Í raun ríkir líka alger óvissa um það hvernig menn ætla að losa þær eignir sem íslenska ríkið fær þá í hendurnar, eins og Íslandsbanka og hluta af Arion banka, hvernig eigi að koma bönkunum í verð og hvaða kaupendur verði til staðar. Manni finnst verið að létta á kröfuhöfum og að þeir séu mjög ánægðir með að sitja ekki uppi með bankann og geta greitt stöðugleikaframlag sitt í formi þeirra eigna og auðvitað er ekki tryggt hvert verðmæti þeirra verður í framtíðinni. Vissulega hræða sporin varðandi það hvernig staðið verður að sölu þeirra og hverjum býðst að gera tilboð í það, miðað við einkavæðingu bankanna á sínum tíma sem var dæmigert klúður og hefði aldrei átt að vera gert á þann hátt sem stjórnvöld gerðu á þeim tíma.

Mér finnst líka mjög erfitt sem þingmanni sem á að taka upplýsta ákvörðun í stóru máli eins og þessu að vera að fara að greiða atkvæði um lagaumgjörð um það hvernig skuli búið um stöðugleikaframlagið og að búið sé að taka ákvörðun á öðrum stað um að ganga eigi til samninga við slitabúin á þennan hátt. Við sem greiðum atkvæði í þessu máli í framhaldinu greiðum í raun ekki atkvæði um það hvort viljum miðað við það sem lagt er upp hér til samanburðar, stöðugleikaframlag eða skatt, hvora leiðina við sem þingmenn viljum velja miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Við höfum ekkert val heldur eigum við að greiða atkvæði um þær umbúðir og lagabreytingar sem fylgja því að búið er að taka ákvörðun á öðrum stöðum, hjá fjármálaráðherra og í samráði við Seðlabanka, um að velja stöðugleikaframlagið.

Vissulega voru tvö frumvörp til umræðu fyrir þó nokkru síðan, annað frumvarpið gerði ráð fyrir stöðugleikaframlaginu og hitt gerði ráð fyrir stöðugleikaskattinum. Flest okkar hér greiddu atkvæði með stöðugleikaskatti sem okkur fannst vera leið sem væri einskiptisskattlagning upp á 39% af heildareignum búanna og að gegnsætt væri og augljóst hvernig það yrði framkvæmt. En vissulega hefur verið talað fyrir því í gegnum árin og sagt að mjög gott væri ef hægt væri að ná einhverju samkomulagi við kröfuhafa, en mér finnst það ekki mega kosta hvað sem er.

Hjá mér vakna ótal spurningar. Það hefur komið fram varðandi lífeyrissjóðina að þeir geti ekki næstu sjö árin fjárfest erlendis nema að upphæð sem nemur um 10 milljörðum, en þyrftu þá að fjárfesta fyrir miklu hærri upphæð miðað við eignir sínar og þörf á ávöxtun þess fjár. Spurningum sem hafa verið til umræðu í dag hefur ekki verið svarað, eins og þessari: Hvað liggur að baki verðmati á Íslandsbanka? Það liggur ekki fyrir. Það var talað um fyrir einhverju síðan af þeim sem eru með forsvarsmönnum slitabúsins að bankinn gæti kannski farið á 150 milljarða, en nú er verðmætið allt í einu komið upp í 185 milljarða. Svo hefur verið spurt: Hvaða eignir eru það nákvæmlega sem kröfuhafar greiða ríkinu sem hluta af stöðugleikaframlagi? Það hefur heldur ekki verið farið neitt ofan í saumana á því. Mér finnst þurfa að liggja fyrir hvað sé að baki þessum eignum í raun og veru. Svona mætti áfram telja. Hvað fá kröfuhafar mikinn skattafslátt vegna samkomulagsins?

Svo er það stóra spurningin: Hver er munurinn á stöðugleikaframlaginu miðað við bestu mögulegu heimtur og stöðugleikaskattinum sem boðaður var fyrr á árinu? Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, ef þeir telja að þetta þjóni hagsmunum Íslands svona vel, koma ekki og fara yfir það í þessari umræðu með þingmönnum og rökstyðji það vel, fari yfir það og svari ýmsum spurningum sem hafa komið fram í umræðunni, til að sýna fram á að þetta sé betri og skynsamlegri leið að fara miðað við þær fjárhæðir sem þarna eru undir, betri en útgönguskatturinn sem við höfum líka fjallað um, 39%. Talað hefur verið um að hætta væri á því að þrotabúin eða slitabúin færu í dómsmál. Gott og vel. Það eru rök í málinu að það megi eiga von á því, en verður það ekki bara að hafa sinn gang? Það hefur einnig verið til umræðu að skattlagningarvald íslenska ríkisins nái ansi langt í þeim efnum og að búið sé að sýna fram á það. Þetta eru mismunandi slitabú sem þarna eru undir og þó að eitthvað félli kröfuhöfum í vil og þeir þyrftu ekki að borga útgönguskattinn tel ég að þeir þyrftu þó alltaf að borga það framlag sem hér er undir, stöðugleikaframlag, og þá værum við ekki að taka neina áhættu í sjálfu sér, hitt sé í raun og veru hreinni og gegnsærri leið sem menn gætu miklu frekar sætt sig við.

Ég hef svo sem ekki tekið undir að skattleggja eigi þessa hrægamma í botn til að fara í ýmislegt eins og niðurfærslu lána, líkt og Framsóknarflokkurinn boðaði með miklum bravúr á sínum tíma. Ég tel ekki að þetta eigi að vera tekjuöflunarleið fyrir ríkið, ég tala ekki fyrir því. En mér finnst það sanngirnismál að við tryggjum örugglega með þeirri leið sem valin verður að almenningur gjaldi ekki fyrir hana með óstöðugleika í íslensku efnahagskerfi og að jöfnuður sé á milli aðila, þeirra fyrirtækja sem eru hér innan lands og þeirra stóru fjárfesta sem lífeyrissjóðirnir eru. Það væri þyngra en tárum tæki ef niðurstaðan yrði þannig að þjóðin sæti áfram í höftum en kröfuhafarnir slyppu billega frá þessu, eða þannig séð, kæmust út með 400–500 milljarða og losuðu sig við eignir, sem eru ekki tryggar til endursölu og enginn veit hve mikið fæst fyrir þær, eins og bankar og annað sem fylgir framlagi þeirra í framtíðinni, og á hve löngum tíma tekst að koma þeim eignum í fjármuni.

Fyrir mína parta á ég mjög erfitt með að skrifa upp á þetta mál, þótt ég ætli ekki að gera upp hug minn hér og nú. Mér finnst að löggjafinn eigi að hafa miklu meiri aðkomu að þessu máli öllu saman og hafi átt að hafa meiri aðkomu að því. Það hefur verið starfandi svokölluð samráðsnefnd um losun hafta en hún hefur ekki virkað sem skyldi og aðkoma stjórnarandstöðunnar að þeirri nefnd hefur líka verið allt of lítil. Það er mjög slæmt að svo sé því að þetta er auðvitað stórt efnahagsmál og eitt af stærstu verkefnunum sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir við upphaf þessa þings og var byrjað að glíma við það á síðasta kjörtímabili. Allir flokkar ættu að hafa aðkomu að málinu og axla ábyrgð á þeirri leið sem valin verður. Með svona framsetningu verður það ekki þannig að allir geti skrifað upp á að þetta hljóti að vera betri kostur en útgönguskattur.

En hvað getum við alþingismenn sagt sem erum ekki í þeirri stöðu núna að geta haft mikil áhrif á hvað verður gert nema með því mótmæla á þann hátt að greiða ekki atkvæði með því lagatæknilega frumvarpi sem liggur fyrir um framkvæmdina á stöðugleikaframlaginu? Mér finnst það ekki beint lýðræðislegt að við séum komin í þá stöðu að þetta sé í raun búið og gert.

Þingflokkarnir hafa fengið til sín samtökin Indefence, sem voru þekkt á síðasta kjörtímabili fyrir andstöðu við þá samninga sem átti að gera vegna svokallaðs Icesave-uppgjörs. Nú hafa þau lýst efasemdum um að þessi leið ríkisstjórnarinnar sé rétt en eins og ég skil það hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki viljað ljá þeim eyra og hlusta á málflutning þeirra og rökstuðning í málinu. Það er mjög undarlegt að menn gefi sér ekki tíma til að skoða það sem er lagt fram þarna til þess að geta útskýrt leið sína og rökstutt hana betur. Heimsókn samtakanna til þingflokks okkar varð aðeins til að styrkja mann í þeirri trú að við værum ekki að feta alveg rétta leið og það væri mjög margt sem þyrfti að útskýra betur fyrir þingheimi ef sannfæra ætti okkur þingmenn sem búum við það að hafa efa í hjarta um að við séum að taka rétta ákvörðun í þessu máli.

En samkomulag stjórnvalda við kröfuhafa er eitthvað á þessa leið: Framlag þrotabúanna er samtals 379 milljarðar sem skiptist þannig; 8 milljarðar í peningum, það er ekki meira en það í peningum, 185 milljarðar greiddir með Íslandsbanka, og enginn veit hvert verðmætið verður, 80 milljarðar greiddir með ótilgreindum eignum og kröfum, 84 milljarðar greiddir með skuldabréfi í Arion banka og 20 milljarðar greiddir með hlutdeild í áætlaðri sölu á Arion banka. Þannig lítur þetta út og ég held að kröfuhafar hljóti að vera þokkalega hamingjusamir með það, enda vakti það undrun margra þegar stjórnvöld kynntu fyrir einhverjum mánuðum síðan þann möguleika að bjóða slitabúunum upp á að fara þessa leið hversu fljótt þeir svöruðu og voru með fullkomnar tillögur af sinni hálfu í þeim efnum. Ég held að þar hafi meira farið fram en lifandi samtal á milli íslenskra stjórnvalda og svonefndra erlendra hrægamma, sem voru nefndir hér af Framsókn á síðasta kjörtímabili.