145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það sitja í mér einhvers konar sambærileg ónot um hvernig þessum málum er háttað í ferlinu eins og í kringum Icesave. Mér finnst við vera að fara blindandi út í þessar aðgerðir, aðallega af því að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við hið almenna samráð sem var talað um þegar þessi vegferð hófst fyrir alllöngu. Mér finnst það bagalegt, ég hefði viljað fá aðgengi að gögnum til að geta verið upplýstari. Það hefur ekki verið orðið við því. Það hefur verið kallað eftir því að fá sambærilegt aðgengi að stofnunum og var í kringum Icesave-möppuna svokölluðu en það hefur ekki verið brugðist við því og mér finnst það bagalegt. Þetta er það stór viðburður og það lagatæknilegur að nánast ekki nokkur maður í þinginu skilur málið og það finnst mér óásættanlegt.