145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú stýri ég allsherjar- og menntamálanefnd sem er sú nefnd sem var að minnsta kosti á síðasta þingvetri undir gríðarlegu vinnuálagi. Í þingmálaskrám ráðherra var boðað að 50 stjórnarfrumvörp ættu að koma inn í nefndina og nú þegar nóvember er að verða hálfnaður er eitt stjórnarfrumvarp komið inn og við í nefndinni erum að sjálfsögðu búin að afgreiða það. Við erum jafnframt búin að afgreiða eitt þingmannamál.

Við í nefndinni tókum þessa stöðu mjög alvarlega, að við værum að fá þung mál inn í nefndina, og byrjuðum snemma í vetur að starfa og fara í heimsóknir þangað sem okkur langaði að fara. Þannig að við erum búin með þann kafla, en vegna þess að við vorum brýnd til að kvarta meira hefur sú sem hér stendur að mínu mati komið þeirri óánægju á framfæri. Þannig að pönkið lifir alveg í allsherjar- og menntamálanefnd þó að hún sé að sjálfsögðu mjög virðuleg í sínum störfum.

En ég tek undir þá hvatningu til ráðherra að fara að koma fleiri málum hérna inn svo að við í þinginu getum tekið það hlutverk okkar alvarlega að vinna að málum vel. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)