145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[15:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Ég ætla að reyna að ljúka því að fara yfir markmiðin en það er rétt að tíminn er nokkuð knappur.

Í samræmi við minnisblað sem ég fór með fyrir ríkisstjórn á sínum tíma þá eru þau markmið sem við höfum sett í nokkrum atriðum. Gerður verði langtíma sóknarsamningur til tíu ára að minnsta kosti um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við umhverfið. Dregið verði úr vægi kvótakerfis í mjólk og það lagt af í áföngum, dregið enn frekar úr vægi núverandi greiðslumarks í sauðfé, þak verði sett á stuðning til einstakra framleiðenda til að tryggja fjölskylduvænan landbúnað og byggðasjónarmið og hugað að fjölbreyttara fyrirkomulagi á stuðningi. Gerðir verði gagnkvæmir samningar um aukin tollfrjáls viðskipti, stuðningur verði aukinn við lífræna framleiðslu, gæðastýringarkerfi þróuð og umhverfisgreiðslur teknar til skoðunar. Átak verði gert til að bæta ásýnd sveita, auka nýframkvæmdir og efla menntun og rannsóknir í landbúnaði. Geitfjárbændur verði hluti af búvörusamningi, skógarbændur verði jafnframt hluti af samningnum. Með verkefninu Matvælalandið Ísland verði átak gert í markaðssetningu á íslenskum matvælum í tengslum við ferðaþjónustuna. Með öðrum orðum er stefnt í átt til almennra stuðningsforma, óháð búgrein, til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra. Í því sambandi hefur verið rætt um nautgriparækt, geitfjárrækt, útiræktað grænmeti o.fl.

Það er með öðrum orðum horft til þess hvað gagnast íslenskum landbúnaði til lengri tíma fremur en hagsmunum núverandi bænda án þess þó að kippt verði undan þeim fótunum. Með vísan til áherslna ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið út frá því markmiði að efla búsetu í dreifðari byggðum landsins. Ákveðnar greinar landbúnaðarins sem við þekkjum gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja byggðafestu hér á landi og í því sambandi er rétt að vísa til skýrslunnar um sauðfjárbúskapinn. Í stuttu máli sagt mun byggð um allt land eflast með eflingu innlendrar matvælaframleiðslu.

Það er ótímabært að svara að hve miklu leyti byggðasjónarmið munu hafa áhrif í nýjum búvörusamningum en þau eru sannarlega höfð til hliðsjónar. En við munum geta eflt innlenda framleiðslu (Forseti hringir.) og þar með byggð um allt land með sjálfbærum hætti. Það er mikilvægt að horfa til þess sjónarmiðs sem kom fram hjá hv. málshefjanda um jafnvægi á (Forseti hringir.) milli gæðanna og kostnaðarins því ekki viljum við sitja uppi með það að flytja inn vörur, t.d. kjöt sem er mengað af fúkkalyfjum. Það er 60–80 sinnum meira magn notað af fúkkalyfjum víða í Evrópu í framleiðslu á kjöti sem flutt er inn til landsins (Forseti hringir.) miðað við þá gæðavöru sem hér er framleidd.