145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að afgreiða hv. þingmann eins og hann afgreiddi hv. þm. Frosta Sigurjónsson með því að hann hefði setið svo stutt á Alþingi að hann þyrfti að skoða þessi mál betur. Ég gæti auðvitað sagt við hv. þingmann: Ég er búinn að vera enn þá lengur á þingi en hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson (Gripið fram í.) og þekki þetta enn lengra aftur í tímann, ég sat meira að segja í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins á einum tíma. Mér er þess vegna annt um að þetta sé ekki rakkað niður af þeirri einu ástæðu að þetta starfi á ábyrgð ríkisins eða sé í skjóli þess. Það væri sjálfsagt að fara yfir það málefnalega. Auðvitað er það þungt hvað hefur orðið að hlaupa undir bagga með Íbúðalánasjóði, en einhver áföll hefðu alltaf orðið einhvers staðar í samfélaginu vegna húsnæðislána, ef ekki í einkavæddu bankakerfi þá einhvers staðar annars staðar. Íbúðalánasjóður gegndi mjög veigamiklu hlutverki þegar ekki var öðrum til að dreifa og gerir reyndar enn. Hv. þingmaður nefndi það meira að segja að á sumum svæðum landsins er markaðsbrestur og bankar standa ekki í röðum til þess að lána. Vissulega höfum við þar með tekið pólitíska ákvörðun (Forseti hringir.) um að taka í einhverjum mæli áhættuna á ríkið sem af því er fólgin að veita lán út á svæði þar sem fasteignamarkaðurinn er veikur.