145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að eiga ríkisútvarp sem er ekki háð viðskiptahagsmunum og er í góðum tengslum við landið allt. Við þurfum að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Svo stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins geti beitt sér að framtíðarstefnu almannaútvarps þarf að leysa að minnsta kosti þrjú mál með atbeina Alþingis. Þau eru öll löngu þekkt og hafa verið nefnd hér fyrr í umræðunni.

Í fyrsta lagi er í fjáraukalagafrumvarpi, sem mælt hefur verið fyrir, tillaga um að Alþingi samþykki forsendur sölusamnings með sölu á lóð RÚV. Salan gæfi RÚV umtalsverða upphæð sem nota mætti til þess að greiða skuldir.

Í öðru lagi þarf að leysa þann vanda RÚV sem lífeyrisskuldbindingar valda. Alþingi samþykkti með fjáraukalögum 2014 að ríkið tæki á sig lífeyrisskuldbindingar einkarekinna hjúkrunarheimila. Því er sjálfsagt framhald að stjórnvöld leysi vanda sem lífeyrisskuldbindingarnar skapa í félagi í þess eigin eigu.

Í þriðja lagi þarf útvarpsgjaldið að haldast að minnsta kosti óbreytt en taka ekki lækkunum eins og lög gera ráð fyrir. Boðað hefur verið að hæstv. menntamálaráðherra mæli fyrir frumvarpi um óbreytt útvarpsgjald innan tíðar og ég vænti þess að hæstv. ráðherra staðfesti það í máli sínu á eftir.

Allar verðbættar fjárhæðir í þeirri skýrslu sem við ræðum hér eru framreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs en laun hafa hækkað mun meira. Það sér hver maður að ef útvarpsgjaldið lækkar frá því sem nú er en laun hækka umtalsvert, bæði hjá starfsmönnum og verktökum sem RÚV skiptir við, verður rekstrarstaða RÚV enn verri, enn frekari niðurskurður blasir við og Ríkisútvarpið enn lengra frá því að rækja hlutverk sitt sem almannaútvarp.

Er það kannski það sem hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn vill og telur sér hag í að vinna að?