145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og hv. þingmönnum öllum fyrir umræðuna.

Að gefnu tilefni vil ég byrja á að svara því sem sérstaklega var beint til mín í lokaræðu um útvarpsgjaldið. Það er ekki svo að ég hafi bara lýst skoðun minni almennt, ég sagði strax í vor að ég mundi leggja fram frumvarp sem hefur þær afleiðingar að útvarpsgjaldið verður óbreytt. Ég vil gera það þannig að það er ekki bara einhver skoðun.

Á hitt vil ég minna hv. þingmann, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir vel, að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald og að ég tala hér um þann málaflokk sem undir mig heyrir.

Ég vil líka gera athugasemd, virðulegi forseti, við þá fullyrðingu hv. þingmanns, málshefjanda, að formaður fjárlaganefndar sé einhver sérstakur andstæðingur Ríkisútvarpsins. Ég tel þetta rangt. Formaður fjárlaganefndar er bara að vinna sitt starf sem snýr að því að reyna að tryggja að nýting á þeim fjármunum sem ríkið og Alþingi veitir til ákveðinnar starfsemi sé alltaf sem best og gagnsæjust. Mér finnst ekki rétt að nálgast það með þessum hætti. (Gripið fram í.)

Síðan tek ég líka undir það sem hér hefur verið sagt í umræðunni, það er merkjanlegur og mjög athyglisverður árangur sem hefur náðst hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins á undanförnum mánuðum og missirum, m.a. hvað varðar reksturinn sjálfan, það að ná að leigja frá sér húsnæði, koma byggingarrétti á lóðinni í verð og auka framleiðslu á innlendu og menningartengdu efni. Ég held að þetta sé mikilvægt og ég tel mjög til eftirbreytni þá áherslu sem Ríkisútvarpið leggur til dæmis á barnaefni.

Ég vil líka segja að ég tel ekki að það eigi að hlaupa í einhverjar breytingar á þessum rekstri. Við eigum að gera það að vel athuguðu máli, ræða það í þingsölum og í samfélaginu áður en menn gera einhverjar slíkar breytingar. Ég tel að við eigum að vera opin fyrir þeirri umræðu og að nauðsynlegt sé að fara í hana.

Hvað varðar síðan yfirlýsingar einstakra þingmanna eins og hv. þm. Róberts Marshalls um að þeir vilji ekki vera bundnir þessari skýrslu vegna þess að þarna hafi sjálfstæðismaður verið einn af þremur nefndarmönnum (Forseti hringir.) geri ég engar athugasemdir við það. Ég geri enga kröfu á hv. þingmenn um að þeir haldi sig á málefnalegum nótum frekar en þeir sjálfir kjósa.

Ég vil þó segja að þessi skýrsla er ágætur grunnur ásamt öðrum þeim upplýsingum sem hafa komið fram um rekstur Ríkisútvarpsins til að ræða þann þátt málsins. Síðan eigum við eftir að ræða í framtíðinni aðra þætti sem snúa að því hvernig við náum þeim markmiðum sem sett voru varðandi rekstur Ríkisútvarpsins.