145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða eftir 3. umr. frumvarps til laga um náttúruvernd. Við horfum á gríðarlega mikilvæga niðurstöðu. Við erum að tala um betri og sterkari náttúruverndarlög en eru samkvæmt núgildandi rétti, verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. Tíminn hefur unnið með náttúrunni og hefur unnið með náttúruvernd í þessu efni eins og svo ótal mörgum öðrum. Ég vil því nota þetta sérstaka tækifæri hér til að brýna okkur öll í því að taka saman höndum í næsta verkefni í þróun náttúruverndar á Íslandi sem er að stofna þjóðgarð á miðhálendinu en nú í mars síðastliðnum studdu ríflega 60% Íslendinga þá hugmynd. Það er vaxandi stuðningur við það, 5% fleiri en var árið 2011. Það er mikill stuðningur við þetta hér í þinginu. Nú er tillaga þess efnis hjá umhverfis- og samgöngunefnd og ég tel að það sé næsta skref sem við eigum að einhenda okkur í að setja saman myndarlegan þjóðgarð á miðhálendinu á Íslandi sem eftir verður tekið um allan heim.