145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka fyrir það ef hv. þingmenn ætla að veita aðhald að framkvæmd þessarar stefnu. Ég mun að sjálfsögðu þiggja það með þökkum og reyna að stunda það sjálfur líka gagnvart þeim sem eiga að framfylgja því sem kemur sem afurð Alþingis út úr þeirri vinnu sem fram undan er. Ég held að við deilum öll þeirri hugsun sameiginlega í því að reyna að bæta þjónustu ríkisins í þessum málaflokki. Það eru held ég allir á einu máli um að ekki sé vanþörf á.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um fanga sérstaklega þá er, eftir því sem ég best veit, að fara í gang starfshópur sem fer yfir geðheilbrigðismál fanga. Það er gert ráð fyrir því í þeirri vinnu sem hér er til umræðu að sett verði á fót þverfaglegt teymi, geðheilbrigðisteymi, sem muni vinna með Fangelsismálastofnun og viðkomandi heilbrigðisstofnun (Forseti hringir.) að því að vinna með málefni geðsjúkra fanga.