145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

umfjöllun um hryðjuverkin í París í fjölmiðlum.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hefur nú þegar komið fram hjá öryggisþjónustu ýmissa landa, m.a. í nágrannalöndunum, að samtök eins og ISIS hafi nýtt sér neyð fólks, sem streymir til Evrópu sem flóttamenn og annars konar förufólk, til þess að smygla sínu fólki þar með. (Gripið fram í.) Jafnframt má það vera ljóst að þegar slík samtök hafa lýst því yfir sjálf að þau standi í slíku þá hljóta menn að taka það alvarlega að þau hafi látið verða að því. Með því að ræða þau mál er síður en svo verið að skapa tortryggni. Eins og hv. þingmaður las hér upp orð fyrir orð þá held ég að það sé alveg rétt að almenningur kunni að greina þarna á milli og að almenningur fái ekki þá hugmynd að flóttafólk sé almennt glæpamenn eða hryðjuverkamenn þó að menn bendi á þá augljósu staðreynd að glæpamenn misnoti aðstöðu þessa fólks.

Það er ákaflega sérkennileg röksemdafærsla að halda því fram, virðulegi forseti, að það sé til svo vont fólk að það sé tilbúið að drepa menn af handahófi, skjóta í höfuðið hvern á fætur öðrum, sprengja sjálft sig og aðra í loft upp, en það sé hins vegar enginn tilbúinn að ganga svo langt að þykjast vera eitthvað annað en hann er. Þetta gengur náttúrlega ekki upp. Það sjá það allir að þeir sem eru þetta illir eru líka tilbúnir til að nýta sér neyð flóttafólks og eru enda sjálfir ábyrgir fyrir því að margt þetta flóttafólk er farið af stað og þeir fylgja þá sömu leið.

Virðulegi forseti. Ég held að ef við viljum halda aftur af öfgahreyfingum hér á Íslandi eða annars staðar þá sé besta leiðin til þess sú að ræða hlutina eins og þeir raunverulega eru, annars erum við að búa til hættu á að fólk leiti á vit öfgahreyfinga.