145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:34]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu undirbúningur að búvörusamningum og minnkuð tollvernd.

Ég stend í þeirri meiningu að þetta umræðuefni sé kannski svolítið stærra en þetta tvennt því að í landbúnaðinum okkar býr mikil hefð og saga og stór hluti af okkar menningu. Þetta er risastórt byggðamál og víða um land standa byggðarlög og falla með þjónustu við bændur.

Nú hefur þróunin orðið sú á undanförnum árum ekki síst að mjólkurframleiðsla hefur færst yfir á ákveðin svæði og sauðfjárframleiðsla yfir á önnur. En það sem er að koma svolítið nýtt inn núna og við verðum að hafa á bak við eyrað í þessari umræðu og getum ekki leyft okkur annað er þjónusta við ferðamenn, sem er sú atvinnugrein sem mest vex.