145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar gátu menn sest niður í máli sem var töluvert umfangsmeira en þetta og komist að niðurstöðu. Það var frumvarp til laga um breytingar á lögum í 95 greinum, þ.e. löggjöfin um náttúruvernd. Menn gátu sest niður og rætt það mál, skrælt utan af því, fundið atriðin sem þeir voru ósammála um og ósáttir við og síðan unnið með þau hvert og eitt þangað til niðurstaða fékkst. Af hverju gat utanríkismálanefnd ekki gert það í þessu máli? Mér er það algerlega óskiljanlegt, bara fullkomlega óskiljanlegt. (Gripið fram í.) Menn höfðu engan áhuga á því. Það er búið að semja um málið einhvers staðar. Menn nenna ekki einu sinni að koma hingað og tala um það, þeim er alveg sama. Já, já, förum bara sameiginlega, ríkisstjórnin, hægt og rólega í vegferðina að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og þar með málaflokkinn um þróunarsamvinnu. Það er vegferðin sem menn eru á. Mér finnst það alveg ömurleg staða. Mér finnst líka ömurleg staða að standa hér og vita að öllum er alveg sama um það sem maður er að segja, af því að þeir ætla bara að gera þetta, þeir eru ekki að hlusta á neinn. (Forseti hringir.) Lýðræðið er „pein“, lýðræðið er mjög flókið og óþægilegt fyrirbæri. Og það er augljóst (Forseti hringir.) og er að birtast okkur hér að stjórnarþingmenn þola ekki þessa umræðu.