145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega óskiljanlegt í hvaða stöðu þetta mál er komið. Hér er það svo að hæstv. ráðherra hefur talað samtals í þessu máli í 36 mínútur. Það er allt og sumt. Hann fæst ekki til að svara grundvallarspurningum og þegar eftir því er leitað þá er þingið hunsað sem er orðinn plagsiður hjá ríkisstjórninni eins og hún leggur sig. Það þykir eðlileg framkoma við Alþingi á Íslandi að ráðherrar yppi öxlum og hunsi þingið.

Af hverju er óskað eftir ráðherra við þessa umræðu? Það er vegna þess að út af standa mjög alvarlegar spurningar og áleitin álitamál. Það er lágmarkskurteisi að hæstv. ráðherra komi hér. Ég krefst þess af forseta að fara fram á það að ráðherrann komi til umræðunnar. Ef það gengur ekki þá verðum við að fresta henni þangað til ráðherrann getur, vegna anna og flokksstarfa, komið hingað til þess að ræða málið við þingið. Annað er bara gjörsamlega óásættanlegt.