145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem kalla á það að ráðherrann sé hér og útskýri mál sitt. Við höfum að vísu heyrt það að þegar hann var með starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar og þeir spurðu hver rökin væru fyrir því að hann legði þetta fram svaraði hann: Ég þarf engin rök. Það náttúrlega líka ástæða til þess að hann komi og útskýri fyrir okkur hvers vegna hann þarf engin rök til að fara í þá óheillabreytingu og óheillaför sem hann hefur lagt upp í.

Mig langar að vísa beint í nefndarálit minni hlutans. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Athygli vekur að DAC tekur sérstaklega fram að stofnanarammi Íslands í málaflokknum búi yfir þeirri getu sem þarf til að ná markmiðum þess í þróunarsamvinnu. Þó Ísland sé lítið komi það á mörgum sviðum þróunarsamvinnu vel út í samanburði við mörg ríki sem þó séu öflug á þeim vettvangi. DAC klykkir út með því að segja að með aðild Íslands að þróunarsamvinnunefndinni muni einstök nálgun Íslands og 30 ára reynsla gagnast henni vel.“

Ég get ekki séð að eitthvað í þessu færi rök að því að loka og leggja niður sérfræðistofnunina í málaflokknum. Það er mér alveg óskiljanlegt, virðulegi forseti, hvernig hæstv. ráðherrann, þótt vegir hans séu stundum órannsakanlegir, kemst að þessari niðurstöðu í málinu.