145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Okkur þingmönnum var gerð grein fyrir því í gær að ekki væri unnt að koma ráðherranum til umræðunnar en ég hef ekki enn fengið nein skilaboð úr forsetastóli um það hver staðan er núna í samskiptum við hæstv. ráðherra og hvort hann hefur málefnalegar ástæður til þess að vera fjarri þegar um þessa umræðu er að ræða, þar sem við höfum ítrekað farið fram á að hann væri hér til svara um tiltekin álitamál.

Ég held að ekki þurfi mjög glöggskyggnan stjórnmálagreinanda til að átta sig á því að þessari umræðu vindur ekki mjög hratt fram á meðan ráðherrann leggur ekki sitt af mörkum til þess að greiða umræðunni leið hér í gegnum þingið.

Ef hann hunsar þetta, eins og hv. þm. Róbert Marshall talaði um hér í gær, ef hann lítur svo á að stjórnarfrumvörp séu eins og að fara með föt í hreinsun, leggja þau bara subbulega hér inn og taka þau svo þrifin og skínandi fögur úr höndum þingmanna einhverjum vikum síðar, þá er það misskilningur.

Þegar málið er svona vont verður hæstv. ráðherra að koma til umræðunnar.