145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar maður er ráðherra þá er ekki nóg að segja „af því bara“. Það eru rökin hjá hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Þegar hann er spurður hvers vegna hann sé að þessu þarf hann ekki að færa fyrir því rök. Það er eins og litlu krakkarnir segja: Af því bara.

Það dugar ekki í þessu máli. Þetta er stórt og viðamikið mál. Stjórnsýslulega er það ekki vel gert að fara fram með þessum hætti, það hefur komið fram í máli Ríkisendurskoðunar sem hæstv. fjárlaganefnd og formaður hennar hafa viljað lyfta sérstaklega þegar hentar.

Ég skil ekki í þessu tilviki hvers vegna fólk getur hunsað jafn ákveðnar athugasemdir sem þar koma fram og hvers vegna ráðherra leyfir sér að gera það þar sem verið er að fara með áætlun og framkvæmdir og alla stjórnsýslu á sama blettinn í algert ógagnsæi. Fyrir það hefur hæstv. ráðherra ekki getað svarað. Það þarf hann að gera. Það er ekki nóg að segja „af því bara“.