145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:46]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem mér þóttu svona í takt við það sem hér hefur komið fram í dag að þingmenn eru almennt á því, alla vega langflestir af þeim sem hafa ómakað sig á því taka til máls undir þessum lið, að rétt sé að hinkra og bíða eftir þeirri faglegu úttekt. Það er nefnilega þannig að alveg óskiljanlegur asi er á málinu miðað við að þetta er bara handan við hornið. Ég er á því að þetta eigi ekki að snúast um hægri eða vinstri pólitík eða annað slíkt, þetta þarf að vera yfir það hafið. Það er svo mikið í húfi, ekki bara fyrir okkur á Íslandi heldur líka fyrir fjöldann allan af fólki í þeim löndum sem stofnunin hefur verið mest að vinna.

Þess vegna vil ég aðeins koma inn á það og bið hv. þingmann að bregðast við þeirri tilfinningu minni eða því sem hefur komið hérna upp í umræðunni að þetta snúist að einhverju leyti, og jafnvel kannski meira en við gerum okkur grein fyrir, um hagsmuni, að einhvers staðar leynist hagsmunir, því að fagleg eða rekstrarleg rök eru engin. Einhvers staðar hefur verið talað um hrossakaup og hagsmuni. Telur hv. þingmaður í því samhengi að þarna liggi kannski undir steini þeir hagsmunir að hafa aðgengi að auðlindum, jarðhita eða slíku í gegnum utanríkisráðuneytið en ekki stofnun sem þarf að lúta gagnsæis samkvæmt lögum?