145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að nú sé löngu kominn tími til eins og ég hef sagt í umræðunni áður í dag að menn gangi til atkvæða í þessu máli. Ég held að það sé alveg sama hversu oft því er haldið fram með ósanngjörnum og ósönnum hætti að málið hafi verið rifið út úr utanríkismálanefnd, það er rangt. Málið hefur verið rætt í 30 klukkustundir, mál sem er óbreytt frá síðasta þingi, það hefur verið rætt í 30 klukkustundir samtals í þessum sal. Það var rætt á tólf fundum utanríkismálanefndar og í bæði skiptin þegar málið hefur verið til umræðu hér á hvoru þingi fyrir sig hefur málið verið afgreitt með meiri hluta nefndarinnar út úr nefndinni. Þannig að allt tal um að ekki sé meiri hluti fyrir málinu og það hafi verið rifið út úr nefndinni er rangt.

Menn eiga að gangast við því eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur þó hugrekki til að gera að viðurkenna að hér er bara á ferðinni gamaldags málþóf og ekkert annað. Menn eru að reyna að þæfa málið og halda síðan fram einhverjum samsæriskenningum um hrossakaup og að fyrir málinu sé ekki meiri hluti. Ef stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) er sannfærð um að fyrir málinu sé ekki meiri hluti þá hljóta menn að vera alveg til í atkvæðagreiðslu um málið, þá hljóta menn að vilja ganga til þess verkefnis ef ekki er (Forseti hringir.) meiri hluti fyrir því. Við skulum láta á það reyna. En allt þetta tal, virðulegur forseti, sem endalaust (Forseti hringir.) hefur verið klifað hér á um að málið hafi verið rifið út úr nefndinni er ekki rétt. (ÖJ: Við erum að tala um sannfæringu fyrir málinu.)