145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá athugasemd sem ég gerði hér áðan. Það er rétt, sem fram kemur hjá forseta, að hann greindi frá fjarveru ráðherrans framan af umræðunni hér í dag. Það gerir það ekkert betra að taka málið á dagskrá í fjarveru ráðherra, sérstaklega ekki þegar það er að gerast enn einu sinni að ráðherrann er fjarverandi þessa umræðu. Það er auðvitað enn lakara þegar til þess er litið að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins og enginn þingmaður Framsóknarflokksins virðist styðja þetta þingmál.

Það hefur til dæmis enginn þingmaður Framsóknarflokksins talað fyrir þessu þingmáli hér við þessa umræðu. Það er lágmark að hafa einn fylgismann stjórnarfrumvarps til að mæla því bót hér við umræðu í þinginu. Fyrst það er enginn annar framsóknarmaður hér í þinginu sem treystir sér til að mæla með málinu þá er algert lágmark að flutningsmaðurinn sjálfur sé hér til staðar til að gera það.