145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú gerðist það óvænta að hér kom einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, nefndarmaður í utanríkismálanefnd, undir liðnum um fundarstjórn forseta og tók til máls. Nú hefur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fjölgað um 100%, hv. formaður nefndarinnar í tíu mínútur að lesa nefndarálitið og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason í eina mínútu um fundarstjórn forseta að lýsa því hvernig þetta var í nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka það og þakka hv. þingmanni að hlusta á mál mitt. Þetta eru fullkomlega óeðlileg vinnubrögð í nefndinni og ungur og óreyndur þingmaður sem kominn er hér til starfa og ætlar að starfa hérna á næstu árum á ekki að láta bjóða sér slík vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er hneisa. (VBj: Þingmaðurinn fer rangt með.) Þetta er skandall. Ég skora á hv. þingmann að koma hingað og lýsa því betur hvernig þetta átti sér stað í nefndinni og hugsa um þessa tvo daga, 15. október og 16. október (Forseti hringir.) hvernig þetta var rifið út. Hins vegar verður að segja hv. þingmanni það til hróss að hann hefur fyrirvara á málinu og er einn af fáum sem þorir að láta (Forseti hringir.) skoðanir sínar í ljós á þessu (Forseti hringir.) vonda máli sem á að keyra í gegn af fjarverandi ráðherra.