145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að fagna því að hæstv. utanríkisráðherra er í salnum. Þegar ég lít yfir greinargerðina með frumvarpinu þá er ítrekað sagt, með leyfi forseta:

„Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar og kom þar fram að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni. Skýrslan hafði að geyma ýmsar ábendingar um atriði þar sem gera mætti betur, ýmist á sviði stefnumótunar, framlaga eða fyrirkomulags.“

Einnig segir:

„Rýnihópurinn lagði enn fremur til að Ísland kannaði hvort skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands væri enn hentugt.“

Síðan er meginniðurstaða skýrslu Þóris Guðmundssonar, með leyfi forseta, „að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað“. Var einhvers staðar sagt hvaða staður það ætti að vera? Hvar er það? Hver færir rök fyrir því og hvenær? Er ekki umdeilt hvaða staður þetta er?