145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst sú umræða sem er að skapast hér og andrúmsloftið í salnum og á bekkjunum alveg óskaplega afhjúpandi. Það að telja það ástæðu til að segja einhverja fimmaurabrandara og henda gaman að því að einhverjir vitlausir og naívir vinstri menn hafi áhuga á þróunarsamvinnu — ég á ekki til aukatekið orð yfir stemningunni hér í þessum sal og því sem sagt er í þessum stól. Menn eru að taka upp bækur og reyna að koma höggi á þá sem berjast fyrir því hér að við séum stolt þjóð meðal þjóða og veitum öfluga þróunaraðstoð.

Finnst ykkur þetta í lagi, kæri þingheimur? Viljið þið líta í eigin barm og átta ykkur á því að við erum meðal 20 ríkustu þjóða heims og við eigum að hjálpa 20 fátækustu þjóðum heims eins vel og við getum? Við eigum ekki að henda gaman að því hér í salnum eða reyna að láta það líta út sem einhvern aulahátt þeirra sem fyrir því berjast, eins og menn gera hér ítrekað.