145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að mestu tekið undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég sat í hagræðingarhópnum og þar var það meðal annars til skoðunar hvort ekki væri mikil sóun á almannafé að hafa fjármálaskrifstofur í hverju ráðuneyti fyrir sig. Í 320 þús. manna samfélagi væri best að fjármálaráðuneytið héldi utan um þetta með einhverri sérstakri fjármálaskrifstofu ríkisins, það væri eðlilegast þó að ráðuneytin hefðu fjármálastjóra sem mundu skipuleggja helstu línurnar og ættu þá kannski aðkomu að fjármálastofu ríkisins. Ég tel að það væri hægt að spara mikið fé með því að sameina grunnþjónustu ríkisins, símsvörun og tölvuvinnslu, því að þegar ramminn er settur fram að vori liggja allar tölur fyrir. Styrkingin þarf ekki að vera í hverju ráðuneyti fyrir sig, bara svo það sé sagt hér, virðulegi forseti. Til að skapa hér þverpólitíska sátt um málið varð þetta niðurstaðan. Það má eiginlega segja að þetta sé nokkurs konar stjórnarskrá opinberra fjármála og um það verður að ríkja sátt allra flokka í þinginu að mínu mati, allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis, því að það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi varðandi rekstur landsins, afkomu ríkissjóðs og þar með afkomu heimilanna í landinu og alla umgjörð um það að hér sé hægt að hafa gott mannlíf.

Ég tek undir þau orð þingmannsins að núna sé bráðnauðsynlegt að taka upp traustari hagstjórn eftir þau áföll sem við lentum í árið 2008. Ekki mundi mér leiðast það, virðulegi forseti, að þetta frumvarp leiddi til mun minni sóunar í (Forseti hringir.) kerfinu og að mun betur yrði farið með almannafé en hefur kannski tíðkast í tímans rás.