145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir góðar spurningar og vangaveltur sem er nauðsynlegt að fara í gegnum.

Varðandi fyrri spurninguna og áréttingu á því að styrkja fagþátt Alþingis gagnvart úrvinnslu og þeim lagaramma sem við erum að leggja hér til til að styrkja þetta ferli, sem eru fjárlög og úrvinnslan á Alþingi, þá tel ég rétt og sagði það í fyrra andsvari að sömu rök ættu við, að nauðsynlegt er að styrkja fagþáttinn og ég treysti á fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, sem hafa lagt upp með að ná samstöðu um málið, að fara vel yfir það.

Varðandi seinni spurninguna sem mig langar að koma inn á og mér finnst jafnframt mjög verðug, þá er sjálfbærni mjög mikilvæg og þessi félagslega hlið, þ.e. jöfnuður, sem er mjög til umræðu og er einmitt tengt hagstjórn í dag, bæði hjá OECD og fleiri stofnunum sem hafa verið að gefa út skýrslur og tjá sig um það mál. Þó að við tökum þetta skref núna og tökum ekki inn mælikvarða þá þurfum við samt að átta okkur á því hvaða mælikvarða við getum notað á til dæmis félagslega þáttinn og jöfnuðinn. Það er mælikvarði núna sem er svona félagsleg jöfnunarvísitala og heitir, með leyfi forseta, „social progress index“ sem Harvard-háskóli vinnur með, sem gæti verið tæki sem við getum litið til og tekið (Forseti hringir.) þá inn í lög, þetta frumvarp verður vonandi að lögum, í framhaldinu.