145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var ekki að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn, hann var að gagnrýna Samfylkinguna. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér umræðuna um Kárahnjúka eða kosningaplögg. Þáverandi formaður Samfylkingarinnar, sá ágæti einstaklingur sem ég ber virðingu fyrir, var ekki á þingi þegar tekin var ákvörðun um það en það fór ekkert á milli mála, þegar það var tekið í gegn, hvar hv. þingmaður stóð; tók að vísu þátt í því í borgarstjórn Reykjavíkur, við þurftum að koma að því verkefni í gegnum Landsvirkjun. Ef verið er að tala um Kárahnjúkavirkjun þá getur hv. þingmaður ekki verið að skammast í Sjálfstæðisflokknum. Eða einkavæðingu bankanna — þá hvet ég hv. þingmann til að kynna sér ummæli Samfylkingarinnar sem þá var í stjórnarandstöðu.

Þegar kemur að skattalækkunum, þá stóð deilan ekki um það hvort lækka ætti skatta. Hún stóð um það hvernig það væri gert, ef ég man rétt. Samfylkingin taldi sig vera skattalækkunarflokk og mælti því bót. Ég held að hv. þingmaður, ef hann ætlar að vera trúverðugur í gagnrýni sinni, ætti að líta sér nær í staðinn fyrir að tala um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fullkominn og við höfum gert mistök. Ætli helstu mistökin hafi ekki verið þau að við héldum ekki nógu mikið aftur af ríkisútgjöldum í góðærinu. En Samfylkingin var svo sannarlega ekki að stoppa okkur þar, eða á nokkrum einasta tímapunkti þegar kom að ríkisútgjöldum. En það er munur á hv. þingmanni og mér og það er eðlilegt því að við erum hvort í sínum flokki. Ég tel að fólk fari almennt betur með sína eigin peninga en stjórnmálamenn og tel þess vegna mikilvægt að fólk hafi meira á milli handanna og að við eigum að gæta hófs í skattheimtu. Þar skilur á milli.

En hv. þingmaður, óafvitandi kannski, var ekki að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn, hv. þingmaður var að gagnrýna Samfylkinguna. Hv. þingmaður getur flett þessu öllu upp því að þetta er allt saman til.