145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mál, sem hefur að mestu leyti verið málefnaleg þar sem menn hafa farið yfir efnisatriði frumvarpsins. Ég tel samt ástæðu til að fara í gegnum nokkur atriði sem menn nefndu í umræðunni og reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Hvað varðar umræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem sneri að íbúaréttinum, þá er það nokkuð sem við höfum mjög mikið skoðað í sambandi við frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög og líka varðandi húsaleigulög. Ef maður horfir á forsöguna þá virðist vera gefið leyfi til lána til að fjármagna svokallaðan íbúarétt án þess að sérstakur lagagrunnur hafi verið fyrir því fyrirkomulagi. Þess vegna hef ég lagt mjög mikla áherslu á, í þeirri vinnu og þeirri nálgun sem ég hef haft, að ramma af þrjá mismunandi valkosti þegar kemur að húsnæðismálum þannig að það séu ekki aðrir valkostir en eignaríbúð, leiguíbúð eða búsetuíbúð. Íbúaréttur er ekki búseturéttur í mínum huga. Við höfum verið að reyna að ramma það betur inn í þessu frumvarpi svo að sá skilningur sé tryggður. Þá skiptir miklu máli, þegar kemur að neytendavernd almennt og þeim ramma sem við erum að búa til, að við setjum inn að við kaup á búseturétti sé ekki hægt að rukka meira en einn þriðja af markaðsvirði íbúðarinnar. Það voru dæmi um það með íbúaréttinn að menn fjármögnuðu íbúðirnar nánast að fullu, tóku lán og fengu líka fjármuni frá íbúunum án þess að rammi væri utan um það að öðru leyti en því að gefin var heimild fyrir ákveðnum lánaflokkum.

Við erum að reyna að gera það sama þegar kemur að húsaleigulögunum. Við erum að segja skýrt að það sé aðeins heimilt að rukka þrjá mánuði sem tryggingu fyrir efndum þannig að fólk leggi ekki meira fram sem tryggingu en sem svarar þriggja mánaða leigu. Þar af leiðandi er verið að ramma skýrt af hvað hægt er að rukka einstaklinga fyrir.

Ég hvet velferðarnefnd til að fara vel yfir þetta. Ég tel að menn eigi ekki að fara fram hjá lögum sem við erum með á Íslandi þar sem við reynum að ramma af réttindi fólks í gegnum húsaleigulögin eða húsnæðissamvinnufélögin með því að heimila að kalla hlutina einhverjum öðrum nöfnum. Það eru þessi þrjú húsnæðisform sem við erum með og þar er verið að ramma af og tryggja vernd fólks þegar kemur að þessum þáttum. Iðnaðarráðherra, sem fer með sölu á fasteignum, lagði fram frumvarp til að tryggja betur upplýsingaskyldu og reglur sem gilda varðandi sölu á fasteignum. Síðan var verið að dreifa frumvarpi um fasteignalán til neytenda frá fjármála- og efnahagsráðherra þar sem við erum að reyna að ramma enn betur inn hvernig fólk stendur að stærstu, einstöku fjárfestingu sinni sem er að kaupa sér húsnæði. Ég hvet nefndina áfram til að fara vel yfir þetta. Þetta er minn skilningur.

Ástæðan fyrir því að við erum að reyna að taka á þessu er sá að það liggja fyrir ákveðin dómafordæmi þegar kemur að ágreiningi um íbúaréttinn þar sem menn hafa horft til laga um húsnæðissamvinnufélög. Við erum að segja að til þess þurfi viðkomandi félög að fara eftir lögum um húsnæðissamvinnufélög. Ég hvet nefndina, ef hún telur ástæðu til, til að skerpa enn frekar á því en við höfum gert í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna.

Varðandi þær úttektir sem voru ræddar og fjárhagsstöðu félaganna. Hver á að fylgja þessu eftir? Formaður velferðarnefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, talaði töluvert um það þegar frumvarpið kom fyrst fram á vorþingi. Ég held að ástæða sé til að nefndin fari líka yfir það hvort þurfi að skerpa enn betur á því. Við leggjum hins vegar áherslu á að grunngildi samvinnuhreyfingarinnar sé sjálfsábyrgðin þegar kemur að samvinnufélögum. Félagsmenn verða að axla ábyrgðina á félaginu og vinna innan lagarammans. Við höfum reynt að taka fyrir það sem við teljum vera mikilvægast en um leið er verið að segja að mjög margt sem hingað til hefur verið í lögum taki félögin nú sjálf ákvörðun um.

Komið hefur verið inn á mál sem liggur fyrir þinginu og áherslur okkar í stjórnarmeirihlutanum varðandi húsnæðismál. Það eru náttúrulega ýmis jákvæð teikn á lofti þegar kemur að húsnæðismálum. Við sjáum mikla gerjun þegar kemur að útgáfu byggingarleyfa, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þó að við vitum að það tekur ákveðinn tíma fyrir menn að fara í framkvæmdirnar og klára byggingarnar þá sjáum við að markaðurinn er að taka við sér aftur. Það byggist ekki hvað síst á því að núna loksins sjáum við að markaðsvirði fasteigna, þ.e. vísitalan, er komið upp fyrir kostnað við að byggja húsnæði. Þar af leiðandi er enn á ný farið að borga sig að byggja. Ég held að við munum sjá mjög miklar breytingar hvað þetta varðar í fjölgun á nýju húsnæði á næsta ári og næstu árum.

Við báðum um að birt yrði reglulega í fasteignaskrá, ekki bara það sem snýr beinlínis að fjölda kaupsamninga heldur líka upplýsingar um fjölda fyrstu kaupenda. Ég held að það séu upplýsingar sem okkur þingmönnum er mjög umhugað um. Það er áhugavert að sjá að ef við berum saman tölur fyrstu kaupenda þriðja ársfjórðungs 2008 og núna þriðja ársfjórðungs 2015 þá voru fyrstu kaupendur 2008 23% af öllum kaupsamningum en þeir eru núna árið 2015 komnir í 22%. Þetta er veruleg breyting frá því sem var fyrstu árin eftir hrun. Við sjáum líka að fjöldi kaupsamninga hefur tekið kipp. Á þriðja ársfjórðungi 2008 voru 1.682 kaupsamningar en núna 2015 eru þeir 1.993. Þetta eru því ákveðin jákvæð teikn hvað varðar húsnæðismarkaðinn.

Við teljum að sú stóra aðgerð sem við fórum í og sneri að skuldaleiðréttingunni, miðað við þær tölur sem við sjáum um verulega bætta skuldastöðu heimilanna, á Norðurlöndum eru bara Svíar með sambærilega lágt skuldahlutfall og við þegar kemur að húsnæði, geri það að verkum að fólk er meira farið að hugsa sér til hreyfings. Þá förum við að huga að öðrum vandamálum sem við þekkjum kannski betur, eins og ef menn fara að steypa sér í of miklar skuldir aftur. Það sem við erum að huga að með tillögum okkar er hvernig við getum tryggt að við verðum hér með ákveðinn stöðugleika og byggjum áfram upp en förum ekki að steypa okkur aftur í sömu skuldirnar og var mikill hvati til á árunum fyrir hrun.

Það sem mér finnst oft einkenna umræðuna um húsnæðismál og svo margt í umræðu á Íslandi er að hlutirnir þurfa annaðhvort að vera svartir eða hvítir, en þeir eru yfirleitt ekki þannig. Málin eru yfirleitt frekar grá. Við getum öll fundið eitthvað í tillögum annarra flokka sem okkur lýst vel á og getum tekið undir. Ég er algerlega sannfærð um, þó að það heyrist kannski ekki oft í ræðustól, að það sama gildir um stjórnarandstöðuna. Ef hún gætir sanngirni sér hún að hlutir sem við erum að gera erum við að gera vel. Ég ætla að fá að nefna hér, þó að ég hafi ekki gert það fyrr, að mér fannst til dæmis umsögn Viðskiptaráðs um þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, sem fjallað var aðeins um í fjölmiðlum, ekki vera sérstaklega sanngjörn. Menn hefðu alveg getað horft til þess að þar voru jákvæðir þættir þó að þeir tækju ekki undir allar tillögurnar. Ég held að við getum lagt upp með það, ef við horfum yfir tillögurnar, að stjórnarandstöðuflokkurinn Samfylkingin er að mörgu leyti sammála okkur þegar kemur að áherslum í húsnæðismálum. Þar er lögð áhersla á að stuðningur við leigjendur verði til jafns við þá sem eiga húsnæði. Við erum með frumvarp þess efnis sem mun koma fram á næstunni og ég lagði einmitt fram í vor. Gert er ráð fyrir fjárveitingum á fjárlögum fyrir næsta ár til að mæta því frumvarpi. Sú fjárlagatillaga er núna í meðferð þingsins. Líka hefur verið bent á að í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar er talað um að það þurfi að létta á skattlagningu á leigutekjur. Nú þegar er tillaga í þinginu, sem er hluti af yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga, varðandi breytingar á því hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur einstaklinga. Við höfum líka verið að skoða hugmyndir sem snúa að því hvað þessar tvær aðgerðir mundu kosta og hvaða efnahagslegu áhrif þær hefðu, annars vegar breytingar á fjármagnstekjum og hins vegar að leigutekjur skerði ekki bætur almannatrygginga. Það mun koma fram í þinginu fljótlega þar sem við metum efnahagsáhrifin og kostnaðinn af þessu. Það sýnir sig í samanburði við kostnaðinn að við erum að tala um veruleg áhrif af því að auka framboð á húsnæði vegna þeirrar tillögu sem liggur þegar fyrir í þinginu varðandi breytingar á fjármagnstekjuskattinum. Það þýðir lækkun á kostnaði ríkisins um 400 millj. kr. Til að halda áfram þá erum við þegar með fyrirkomulag sem snýr að skattafslætti vegna fyrstu kaupa eða búseturéttar sem er hluti af skuldaleiðréttingunni, svokölluð séreignarsparnaðarleið. Hún snýr ekki bara að fyrstu kaupum heldur geta þeir sem eiga ekki húsnæði nýtt sér séreignarsparnaðinn og fengið verulegan skattafslátt til þess að kaupa sér húsnæði eða búseturétt.

Síðan er frumvarp á leiðinni sem er líka hluti af samkomulagi okkar við aðila vinnumarkaðarins, um stofnframlög, þar sem framlög hins opinbera munu nema 30% af stofnvirði íbúða í nýju félagslegu leiguíbúðakerfi sem von okkar stendur til að verði með tíð og tíma sjálfbært þannig að það muni jafnvel ekki þurfa stuðning hins opinbera þegar við horfum 30–40 ár fram í tímann. Það frumvarp hefur verið unnið í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Síðan eru tveir liðir sem ég get tekið fram hér að ég er ekki sammála. Ég er ekki sammála því að við eigum aftur að veita 90–100% lán. Ég tel að reynsla okkar og annarra landa sé ekki góð af því að vera með of hátt veðsetningarhlutfall eða of háar lánveitingar til íbúðakaupa. Ég tel að stuðningur hins opinbera eigi að felast í því að styðja efnaminni fjölskyldur í gegnum nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og reyna síðan að styðja fólk að leggja til hliðar, spara, þannig að í staðinn fyrir að við rekum hér einhvers konar sérskuldastefnu séum við með raunverulega séreignarstefnu.

Það sama gildir um að auka niðurgreiðslu vaxtakostnaðar á lánum hjá Íbúðalánasjóði vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Við erum að fara yfir í nýtt kerfi þar sem verður ekki lengur niðurgreiddur vaxtakostnaður á lánum hjá Íbúðalánasjóði heldur verður það í höndum viðkomandi félaga, hagnaðarlausra félaga. Þau taka ákvörðun um hvar þau taka lán. Við munum bjóða upp á niðurgreiðslu vaxtakostnaðar en það verður ekki tengt lánum hjá Íbúðalánasjóði.

Hér sjáum við dæmi um það að við eigum mun oftar að geta sýnt hvert öðru smásanngirni og horft á það sem menn eru raunverulega að gera. Þannig held ég að við náum miklu betri árangri fyrir land og þjóð.