145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

eftirlit með lögreglu.

[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessu sambandi sé ágætt að hafa í huga þær lagabreytingar sem við gerðum í tengslum við stofnun embættis sérstaks héraðssaksóknara. Þar eru þættir inni er varða lögregluna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að líta á þetta í samhengi, þ.e. sakamálalöggjöfina hvað varðar héraðssaksóknara og síðan þær tillögur sem komnar eru fram í niðurstöðum þessarar nefndar.

Ekki verður hægt að halda áfram með þetta mál öðruvísi en svo að undirbyggja lagafrumvarp. Og þegar ráðuneytið hefur komið þeirri umgjörð allri fram mun það birtast hér í þinginu. Nefndin skilaði drögum að lagatexta, að sjálfsögðu ekki fullbúnu frumvarpi með tilheyrandi athugasemdum þannig að það þarf allt að líta til þess. En ég held að miðað við okkar kerfi og okkar getu í að gera hlutina almennilega þá séum við þarna að stíga skref fram á við.