145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

[15:39]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Nú er það stefna Sjálfstæðisflokksins að íslenska krónan í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni, svo vitnað sé í landsfundarsamþykkt flokksins frá því í haust. Þar segir enn fremur að kanna skuli til þrautar upptöku myntar sem sé gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill henti þeim best.

Ég beini því spurningu minni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og einnig formanns Sjálfstæðisflokksins, um hvort hann sé að vinna að þessari samþykkt og þá hvernig. Það skiptir töluvert miklu máli fyrir okkur hin sem erum ekki í Sjálfstæðisflokknum og viljum skoða það fyrir alvöru hvort taka eigi upp annan gjaldmiðil og hvernig stöðu okkar er háttað í gjaldmiðilsmálum. Í því samhengi vil ég benda á að Björt framtíð hefur ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu um að mótuð verði gjaldmiðilsstefna til framtíðar. Í henni segir meðal annars að notkun þess gjaldmiðils skuli efla traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma litið og að notkun hans skuli auka möguleika á stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og betri lífskjörum, að gjaldmiðillinn skuli auka frelsi í viðskiptum við útlönd og að gjaldmiðillinn skuli henta íslensku atvinnulífi og hafa góð áhrif á atvinnustig og útflutning, að gjaldmiðillinn skuli auðvelda hagstjórn, minnka áhættu í íslensku efnahagslífi og vera áhættuminni en aðrir valkostir. Þar segir enn fremur að gjaldmiðilsstefnan skuli vera vel framkvæmanleg með hliðsjón af öðrum samhliða aðgerðum sem þörf er á á sviði ríkisfjármála, peningamála og í samningum við önnur lönd.

Mig langaði líka að beina því til hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra hvort hann vildi nýta sér þessa punkta í þeirri vinnu sem hann hlýtur að vera í ef stefnuplögg eins og landsfundarsamþykktir eiga að skipta einhverju máli í hans flokki.