145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa áhyggjum mínum af fákeppni hér á landi og afleiðingum hennar fyrir neytendur. Nú hefur Samkeppniseftirlitið upplýst um skýrslu, reyndar frumskýrslu, sem á eftir að leita eftir andsvörum við og birta í endanlegu formi eftir áramót, en þessi skýrsla hefur mjög alvarlegar fréttir að færa varðandi samkeppni á olíumarkaði hérlendis. Í skýrslunni er fjallað með ítarlegum hætti um aðstæður og háttsemi á markaðnum sem talið er hindra samkeppni, almenningi og samfélaginu til tjóns. Jafnframt er fjallað um hvaða aðgerðir koma til greina til að ryðja þessum samkeppnishindrunum úr vegi. Eldsneytismarkaðurinn er þjóðhagslega mjög mikilvægur og því áhyggjuefni ef samkeppni þar er ekki virk.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um hag almennings. Að mati Samkeppniseftirlitsins er þörf á aðgerðum til að bæta hag almennings í þessum efnum. Talað er um það í skýrslunni að neytendur hafi greitt 4–4,5 milljörðum of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti á árinu 2014. Það er því víðar sem íslenskir neytendur eiga undir högg að sækja og þar má nefna bankamarkaðinn, eins og oft hefur verið minnst á í þessum ræðustól.

Aukin samkeppni leysir úr læðingi krafta sem koma þjóðfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri, stuðla að lægra verði til neytenda og það verður að vera þannig umhverfi og landslag að nýir keppinautar geti haslað sér völl. Það mega ekki vera aðgangshindranir sem koma í veg fyrir það að til að mynda smásalar á eldsneyti, t.d. stórmarkaðir, geti veitt hinum hefðbundnu olíufélögum samkeppnislegt aðhald.


Efnisorð er vísa í ræðuna