145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel reyndar að frumvarpið sé tiltölulega hlutlaust hvað þetta atriði snertir, þ.e. frumvarpið gerir ekki mikinn mun á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána með þeim hætti sem hér er rakið. Reyndar er það svo að dómstólar hafa nýlega komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggðu lánin eins og þau hafa verið veitt standist lög, að þeir almennu lánaskilmálar sem hafa staðið neytendum til boða séu ekki ólögmætir. Það hefur verið látið reyna á það af ýmsum forsendum með ýmsum málsástæðum, bæði hvað varðar skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningum og á grundvelli annarra íslenskra laga. En það er hins vegar rétt að töluvert er um það fjallað í frumvarpinu hvernig þeim upplýsingaskiptum eigi að vera háttað og hvaða kvaðir eru lagðar á lánveitendur varðandi upplýsingagjöf. Meira að segja, eins og hér hefur aðeins verið til umræðu, er gengið nokkuð langt í því að fjalla í lögum um það hvaða aðbúnaður skal vera tryggður þeim starfsmönnum sem mega taka ákvarðanir um þessi lán.

Þetta er feiknaefnismikið frumvarp sem við erum með fyrir í þinginu. Þar er meðal annars brugðist við athugasemdum út af fortakslausu banni við gengistryggingu. Það er líka komið inn á erlendu lánveitingarnar sem eru heimilar í dag án hindrana en í frumvarpinu eru settar töluvert miklar skorður við veitingu erlendra lána. Það er því komið inn á fjölmörg atriði en ekki svo mjög gert upp á milli einstakra lánaforma eins og hv. þingmaður spyr um.