145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að óska hv. þm. Kristjáni Möller til hamingju með að hafa dregið að minnsta kosti einn stjórnarliða upp sem er tilbúinn til að styðja tillöguflutning okkar um kjarabætur til aldraðra og öryrkja, hv. þm. Pál Jóhann Pálsson, það er ánægjulegt. Það er mikilvæg breytingartillaga sem minni hlutinn flytur um fjármuni til að hækka lífeyri til aldraðra og öryrkja frá vorinu og eðlilegt að þeir falli undir kjararáð eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson gat um og lúti sömu reglum. Alþingismenn geta einfaldlega samþykkt það í atkvæðagreiðslunni hvort sem hún er á morgun eða á mánudaginn.

En ég vildi spyrja hv. þingmann vegna þess að hann er langreyndur samgönguráðherra um eitt sem ég skil ekki í frumvarpinu. Ég ætlaði að spyrja um þá ferðamannavegi sem ég hélt að ríkisstjórnin hefði samþykkt að fara í síðasta sumar, löngu tímabærar endurbætur á Uxahryggjum, Kaldadal, Kjósarskarði og Dettifossvegi. Mér er ekki kunnugt um að þeim fjármunum hafi verið ráðstafað, hvorki á Uxahryggjum né á Kaldadal. Þingmaðurinn þekkir trúlega best til í Norðausturkjördæmi og veit hver staðan er á Dettifossvegi, Kjósarskarðsvegur held ég að hafi lítið þokast. Er með þessum breytingum sem eru býsna tæknilegar í tillögu meiri hlutans verið að afturkalla fjárveitingarnar til þessara verkefna eða hvernig er þessu háttað?