145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Orð Ólínu Þorvarðardóttur í viðtali á Bylgjunni í morgun vöktu athygli mína en á þeim mátti skilja að heilbrigðisráðherra sendi að eigin geðþótta lyfjagreiðslunefnd fyrirmæli um kvóta á fjölda sjúklinga sem fá tiltekin lyf. Hér á landi, eins og í öðrum löndum, gerir löggjafinn ráð fyrir að tekin sé afstaða til þátttöku ríkisins vegna lyfja, læknistækja og einstakra heilbrigðisþjónustuþátta. Lyfjagreiðslunefnd er það lögbæra stjórnvald í landinu sem tekur ákvörðun um greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjum og eru ákvarðanir nefndarinnar ekki kæranlegar til ráðherra.

Nefndin var sett á fót með lögum nr. 83/2004, lyfjalögum sem breyttu lögum nr. 93/1994, og var henni fengið það hlutverk að fjalla um verð allra lyfskyldra lyfja, greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði og greiðsluþátttökuverð. Í nefndinni sitja fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, fjármálaráðuneytis, embættis landlæknis og Lyfjastofnunar.

Lyfjagreiðslunefnd skal við ákvarðanir sínar hafa í huga það markmið laganna að halda lyfjakostnaði í lágmarki. Lögin taka því þá stefnu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár að við ákvörðun nefndarinnar verði hún að haga þeim þannig að þær séu innan laga og marka fjárlaga.

Árið 2012, þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sat á þingi, voru sett lög nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum. Var lyfjagreiðslunefnd enn fremur fengið það hlutverk að ákveða í samráði við sérfræðinga Landspítala hvaða lyf teldust leyfisskyld. Með leyfisskyldum lyfjum er átt við lyf sem eingöngu eru notuð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og jafnan kostnaðarsöm og vandmeðfarin, samanber 5. tölulið 2. mgr. 43. gr. lyfjalaga. Við ákvörðun sína er lyfjagreiðslunefnd gert að hafa í huga það markmið lyfjalaga að halda lyfjakostnaði í lágmarki, samanber 1. mgr. 43. gr. lyfjalaga.

Þetta er það sem ráðherrann fer eftir. Réttindi sjúklinga eru mikilvæg og enn mikilvægara (Forseti hringir.) að við höldum til haga sannleikanum í málinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna