145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann nefndi hér auðlegðarskatt og ég vil í byrjun segja að þegar ég var fjármálaráðherra tók ég eftir tæknilegum göllum á auðlegðarskattinum og sagði í viðtölum að ég vildi endurskoða hann. Það hefur síðan verið notað af pólitískum andstæðingum mínum sem sönnun fyrir því að Samfylkingin vildi ekki taka skatt af auðmönnum eða styrkja jöfnunarhlutverk skattkerfisins sem er af og frá og má auðvitað sjá í samþykktum Samfylkingarinnar. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins er ekki síður mikilvægt en tekjuöflunarhlutverk þess. Nóg um það.

Ég er alveg sannfærð um og held að enginn efist um það í samfélaginu að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði aldrei lækkað skatt á auðmenn með þeim hætti sem gert hefur verið í tíð þessar ríkisstjórnar og síðan séð til þess að öryrkjar og aldraðir væru undir lágmarkslaunum. Það hefði bara aldrei gerst. Ég held að menn efist ekki um það yfir höfuð.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í fjáraukalagafrumvarpið þar sem viðbótarfjármagn er sett bæði í Læknavaktina og heilsugæslustöðina í Salahverfi sem báðar eru einkareknar heilsugæslustöðvar og hafa gert þjónustusamning við ríkið þar sem gert er ráð fyrir að þær fái kostnaðinn við magnaukninguna bætta. Hins vegar er ekki farin sú leið í opinbera kerfinu, hvorki á heilsugæslustöðvunum né sjúkrahúsunum. Gerir hv. þingmaður ekki athugasemdir við þetta? Telur hann það ekki sjálfstæðan niðurskurð í opinbera heilbrigðiskerfinu að magnaukning verði ekki bætt?