145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda eins og aðrir fyrir þessa þörfu umræðu. Eitt er það sem við skulum gera okkur grein fyrir, hinn almenni íslenski lögreglumaður vill ekki vopnbúast. Hann hefur ekki áhuga á því. Hann gerir það ef honum eru gefnar skipanir í þá átt en það er ekki almennur vilji lögreglumanna að vopnbúast.

Við skulum hins vegar horfa á það að á Íslandi er skotvopnaeign mjög almenn. Það væri því fásinna að hafa ekki hér vel þjálfað lögreglulið sem getur gripið til vopna ef nauðsyn ber til. Þegar talað er um að vopnabúnaður lögreglu sé til þess fallinn að stigmagna vopn í umferð má benda á þá staðreynd að í mjög mörgum húsleitum sem farið hefur verið í, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, í sambandi við skipulagða glæpastarfsemi, fíkniefnainnflutning o.fl., hafa menn fundið vopnabúr. Auðvitað sendum við ekki lögreglumenn berhenta í baráttu við slíka glæpamenn. Það sem hins vegar gerist við það að hafa skotvopn í afmörkuðum fjölda lögreglubíla er að viðbragðstíminn styttist. Ef atburðir verða alvarlegir þarf ekki að bíða eftir því að sérsveitin komi á vettvang einhverjum mínútum seinna. Þessar mínútur geta skorið úr um heill og hamingju og velferð.

Við skulum ekki ala á ótta við lögregluna. Það er algjör óþarfi. Lögreglan nýtur fullkomins trausts landsmanna sem betur fer og að verðugleikum og við skulum styðja við lögregluna eins og við mögulega getum. Við höfum gert það. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur varið drjúgu fé eftir mjög mörg mögur ár. Við þurfum meira til, við þurfum almenna uppbyggingu og (Forseti hringir.) við skulum gera okkar besta til að styrkja starfsumhverfi hinnar almennu lögreglu.