145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því. Við þurfum að leggja mikið til rannsókna og annarra slíkra verkefna í skólum landsins og sérstaklega í háskólunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að þaðan koma sprotarnir, eins og hv. þingmaður nefndi. Mér hefur fundist það einkenna hæstv. menntamálaráðherra í þessu samhengi að hann er alltaf að búa til nýja sjóði í staðinn fyrir að efla þá sjóði sem fyrir eru. Það er búinn að vera óttalegur hræringur í þessu efni.

Það er áhugavert að tala um lýðheilsuskatta sem markaða, alveg eins og áfengisgjaldið eða eitthvað slíkt sé markað fyrir tilteknar forvarnir. Það hefur verið tilhneiging stjórnsýslunnar að segja að við eigum að leggja af markaðar tekjur fremur en að marka þær. Það eru mjög skiptar skoðanir á því. Margir halda að þeir verði þá af tekjum ef þetta fer allt í stóra kassann og sé úthlutað þaðan af fjármálaráðherra hverju sinni. En mér finnst þetta vera hugmynd sem vert er að skoða eins og svo margar aðrar.