145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Bætur almannatrygginga munu nú um áramót hækka um 9,7% miðað við tillögur meiri hlutans í þinginu. Um síðustu áramót hækkuðu bæturnar um 3%. Hækkunin núna tekur mið af endurmetinni þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember og þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði. Ef við teljum líka með hækkun á árinu 2014 er þetta uppsöfnuð 17,1% hækkun meðan verðlag hefur hækkað um 7,1%. Allir sjá að hér er um að ræða verulegar bætur og verulega kaupmáttaraukningu til þeirra hópa sem taka bætur úr almannatryggingakerfinu.

Bætur eru ekki laun. Þess vegna erum við með lagaákvæði í 69. gr. laga um almannatryggingar um að þær séu endurskoðaðar árlega. Það gerum við hér í desembermánuði ár hvert. Þess vegna hækkuðu bætur um 3% um síðustu áramót. Þeir þingmenn sem stóðu að því og börðust fyrir því að fá þetta lagaákvæði inn í lögin okkar gerðu það til að tryggja að bætur mundu hækka ár hvert, annaðhvort miðað við laun eða verðlag. Þó að laun hækkuðu ekki yrðu bætur endurskoðaðar. Þetta er munurinn á því að við erum að tala hér um bætur en ekki laun. Við tryggjum að það er alltaf tekið mið af því að hækka bætur. Það er mikilvægt.

Þessi ríkisstjórn hefur lagt meira fjármagn inn í þetta kerfi og lagt til meiri breytingar en við höfum séð á undanförnum árum. Það fyrsta sem við gerðum var að fara inn í almannatryggingarnar og hefja afnám þeirrar skerðingar sem fyrri ríkisstjórn vinstri manna réðst í (Forseti hringir.) gegn þessu sama fólki sem þeir eru nú að reyna að slá ryki í augun á, að þeir séu fólkið sem ætli að bjarga öllu. Menn verða að horfa á verkefnið í heild sinni, horfa til verka síðustu ríkisstjórnar í stað þess að slá sig til riddara eins og minni hlutinn í þinginu er að reyna að gera nú. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna