145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að segja það aftur að ég hvet hv. þingmann til þess að lesa lögin sem búið er að samþykkja um jöfnun húshitunarkostnaðar og dreifingar raforku. Núverandi ríkisstjórn er að tryggja það til frambúðar að þessi mál komist í eðlilegan farveg og þurfi ekki að vera háð duttlungum stjórnmálanna á hverju einasta ári.

Varðandi framhaldsskólana. Það er ákveðinn pottur sem fjárlaganefnd er að setja inn í fjárlagafrumvarpið og snýr að framhaldsskólum í hinum dreifðu byggðum og er í breytingartillögum meiri hlutans. Það er svo að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar leggur mikla áherslu á menntun á landsbyggðinni. Það þarf ekki annað en að skoða til að mynda fjármagnið sem er verið að veita í landsbyggðarháskólana fjóra; Háskólann á Akureyri, Háskólann á Hólum, Háskólann á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands. En að koma hér og tala um það að ekki sé skilningur hjá meiri hluta fjárlaganefndar á öflugu menntastarfi á landsbyggðinni (Forseti hringir.) stenst enga skoðun.

Það er svo að með þessu fjárlagafrumvarpi er verið að veita mikla fjármuni (Forseti hringir.) í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, til háskólanna, ljósleiðaravæðingar, samgangna, hafnarframkvæmda, flugvalla og fleiri atriða. (Forseti hringir.) Það er ég ánægður með og hv. þingmaður ætti að vera það líka. (Gripið fram í.)