145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er margt sem fer í gegnum hugann þegar maður skoðar þau fjárlög sem nú eru komin hingað til 2. umr. og þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið við þau. Það fer ekki hjá því að maður hugleiði líka, í samhengi við fjáraukalögin sem við vorum að ræða hér fyrir fáeinum dögum og voru afgreidd.

Ef ég ætti að taka saman í örfáum orðum þá einkunnagjöf sem helst kemur upp í hugann þegar ég horfi á þessi fjárlög þá eru það hugtök eins og misskipting, ójafnræði, niðurbrot mikilvægra samfélagsstoða vegna skilningsleysis á vanda íslenskrar heilbrigðisþjónustu, skilningsleysi á hlutverki menntakerfisins, undanlátssemi við þá sem mest mega sín í samfélagi okkar, skeytingarleysi um þá sem minnst mega sín. Þetta eru að mínu viti helstu ágallar fjárlagafrumvarpsins. Þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið milli umræðna breyta í raun engu þar um. Sá bútasaumur breytir ekki heildarmyndinni.

Á þessum fjárlögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins næsta ár verði 681 milljarður kr. og búist er við því að tekjur verði 693,3 milljarðar og að afgangurinn af ríkissjóði verði um 15 milljarðar. Það er augljóst að síðustu ár hefur verið að skapast aukið svigrúm í ríkisbúskapnum með batnandi efnahag landsins eftir erfiðleikaárin í kjölfar hrunsins; og það er vel. En þetta aukna svigrúm í ríkisbúskapnum er illa nýtt í fjárlögum næsta árs. Hér hefði þó verið kjörið tækifæri til að bæta landsmönnum upp þann harða og óhjákvæmilega niðurskurð sem grípa þurfti til eftir að stjórnarflokkarnir sem núna stjórna landinu leiddu hrunið yfir þjóðina árið 2008. Nú er lag að búa vel að þeim hópum og stofnunum samfélagsins sem harðast urðu úti eftir hrun: barnafjölskyldunum, öryrkjum og öldruðum, lágtekju- og millitekjuhópunum, að ekki sé minnst á mikilvægar samfélagsstofnanir sem riða á brauðfótum nú eftir átektir hægri aflanna.

Engin fjárframlög eru hér til að mæta húsnæðisvanda ungs fólks í fátæktargildru á leigumarkaði. Það er átakanlegt í ljósi þess að tölur Hagstofunnar sýna að börn leigjenda verða fyrst og verst fyrir barðinu á erfiðum efnahag foreldra sinna. Búseti hefur bent á að nú sé skortur viðvarandi, og verði það áfram, á íbúðum fyrir fjölmenna hópa sem ekki hafa þegar náð að fóta sig á séreignarmarkaði, enda sé margt ungt fólk varanlega útilokað frá kaupendamarkaði eða laskaður hópur eða brenndur af hruninu eins og það er orðað í mati samtakanna á stöðu húsnæðismarkaðarins við lok þessa árs. Þessi hópur verður ekki virkur á séreignamarkaði á því verði og með þeim lánakjörum og kröfum um lánshæfi sem gerðar eru. Búseti bendir á að skortur á framboði húsnæðis fyrir nýkaupendur á markaði og til langtímaleigu hafi neikvæð áhrif á íbúaþróun víða um landsbyggðina þar sem framboð lóða í sveitarfélögum reiknast helst með stórum einbýlishúsum eða raðhúsum.

Það vantar nefnilega á íslenskan húsnæðismarkað framboð húsnæðislausna fyrir þann hóp sem ekki gengur að fjárstuðningi vísum eða hefur minni greiðsluvilja eða greiðslugetu. Það vantar með öðrum orðum milliskrefið og framboð sem sjálfseignarfélög eða samvinnufélög almennings geta skapað. Til þess að þetta geti orðið þurfa sveitarfélögin að gera ýmsar ráðstafanir en Alþingi þarf líka að leggja sitt af mörkum, ekki síst með því að skapa skilvirka farvegi fyrir húsnæðisstuðning fyrir lágtekjuhópa sem byggist á því að virkja samt sem áður það hagræði sem falist getur í lausnum án hagnaðarkröfu. Það eru ýmsar leiðir færar í því sambandi en það verður ekki séð, af þeim húsnæðisfrumvörpum sem félagsmálaráðherra hefur nú lagt fram seint og um síðir, að þeirri þörf sé svarað, að minnsta kosti ekki sem skyldi. Það er talið að nú vanti um 2.500–3.000 íbúðir árlega inn á markaðinn til að mæta þörfum og að byggja þurfi minnst 1.200–1.600 íbúðir á viðráðanlegu verði um land allt.

Lítum þá á velferðarmálin og Landspítalann, þjóðarsjúkrahúsið okkar. Hann fær ekki þá fjármuni sem hann þarf bráðnauðsynlega á að halda til að stytta biðlistana sem sköpuðust í verkföllum ársins. Hann fær ekki nóg til að standa við nýja kjarasamninga eða sinna viðhaldi. Hann fær ekki metið inn í samninga við ríkið aukið álag vegna fólksfjölgunar, meðal annars vegna þess að aldraðir eru að verða hærra hlutfall af þjóðinni, ferðamönnum hefur fjölgað og það hefur aukið álag á heilbrigðiskerfið. Þetta fær hann ekki metið inn í sína samninga. En það er athyglisvert, í ljósi þessa, að í samningum við sérgreinalækna og aðra einkarekna heilbrigðisþjónustu er tekið tillit til einmitt þessara þátta. Þar eru reiknaðir inn álagsþættir sem Landspítalanum er synjað um að metnir séu og segir það sína sögu um hugarfarið og afstöðuna.

Þetta segir ekki síst sína sögu um hugarfar ríkisstjórnarinnar til heilbrigðisþjónustunnar sem útlit er fyrir að stjórnarflokkarnir stefni að að einkavæða, bæði leynt og ljóst og þó aðallega leynt. Áform um einkavæðingu heilsugæslunnar án aðkomu Alþingis, án opinberrar, formlegrar stefnumótunar á opinberum vettvangi — það eru grafalvarleg tíðindi og hin undirliggjandi hvöt núverandi stjórnvalda að útvista opinbera heilbrigðisþjónustu og koma henni á markað; að innleiða markaðshvata í heilsugæsluna þar sem Samkeppniseftirlitið hefði lykilhlutverk eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á hér fyrr í dag þegar hann vakti athygli á að helsti talsmaður um framtíðarþróun heilsugæslunnar, að minnsta kosti í fjölmiðlum dagsins í dag, væri forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Nú er allt gefið eftir. Hagsmunaaðilar hafa ráðamenn í vasanum í þessu efni sem öðru og því miður búa ráðamenn svo um hnúta að hin opinbera þjónusta molnar jafnt og þétt niður með þeim afleiðingum að æ fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar fara í einkarekstur.

Hægt og bítandi er verið að ýta fólki inn í einkarekið heilbrigðiskerfi með því að fjársvelta svo hið opinbera kerfi að það anni ekki því sem gera þarf. Biðlistarnir eru dæmi um þetta. Fólk bíður sárkvalið eftir liðskiptaaðgerðum og meðalbiðtíminn er 14 mánuðir en í einstöku tilvikum allt að því þrjú ár. Augasteinsaðgerðir — dæmi sem er nærtækt að taka, dæmi sem ég frétti bara af nýlega og er raunverulegt dæmi: Maður þarf að endurnýja ökuskírteini sitt en til þess að standast sjónprófið þarf hann fyrst að láta skipta um augasteina. Hann þarf ökuskírteini strax en það er margra mánaða bið eftir aðgerð. Hann þarf ökuskírteinið núna, hann getur ekki beðið. Hann fer á einkastofu, fær þetta gert strax og borgar mörg hundruð þúsund krónur fyrir. Fyrr í dag var nefnt annað dæmi af því þegar Landspítalinn var um árið hættur vegna fjársveltis að anna röntgenmyndatökum sem færðust þar með yfir á einkavettvang þar sem þær voru verðlagðar með öðrum hætti gagnvart sjúklingum. Peningarnir fylgdu sjúklingunum eins og það er orðað en peningarnir fylgja sjúklingunum þó ekki betur en svo að fólk er að greiða tugi þúsunda fyrir rannsóknir og í sumum tilvikum hundruð þúsunda þegar saman safnast margvíslegur lyfjakostnaður og heilbrigðisþjónusta.

Þannig er verið að mola niður íslenskt heilbrigðiskerfi en samt sýnir nýleg úttekt á rekstri Landspítalans að hann er ódýr miðað við sambærilega spítala í nágrannalöndum og er þrátt fyrir bágan fjárhag að skila góðum árangri. Heilbrigðisútgjöld á Íslandi eru nú undir meðallagi OECD-ríkjanna en árið 2003 voru Íslendingar í fremstu röð. Ein birtingarmynd þessa fjársveltis er sjúklingakvótinn sem ég hef aðeins tekið til umræðu á þessum vettvangi. Fjöldatakmarkanir þeirra sjúklinga sem geta fengið bráðnauðsynleg lyf. Fyrstir koma fyrstir fá, ef marka má það ástand sem skapaðist hér í upphafi árs þegar lyfjanefnd var gert að neita, meðal annars krabbameinssjúklingum og fólki sem var að kljást við blindu, um nauðsynleg lyf. Mál sem var seinna leyst með einhverjum hliðarráðstöfunum en varpar engu að síður ljósi á það hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfi okkar.

Hvers konar heilbrigðiskerfi er það sem hættir, eða hefur að minnsta kosti innbyggðan þann möguleika, að gefa sjúku fólki lyfið sem það þarf þegar áætlaður lyfjakvóti, eða öllu heldur sjúklingakvóti, hefur verið uppfylltur? Hvernig líður þeim sem þarf að útskýra fyrir sjúklingi, kannski ungum krabbameinssjúklingi, að hann fái ekki nauðsynlegt lyf af því að hann hafi orðið of seinn? Hann hafi nefnilega greinst eftir að kvóti ársins var uppfylltur, til dæmis eftir 15. apríl á þessu ári þegar nokkur nauðsynleg lyf við krabbameini og augnsjúkdómum og gigt voru uppurin — kvótinn búinn samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisráðuneytisins. Þetta er því miður veruleikinn á Íslandi eftir að þessi háttur var tekinn upp, að binda greiðsluþátttökuheimild frá lyfjagreiðslunefnd fyrir tiltekin lyf við ákveðinn fjölda sjúklinga.

Áður en þessi tilhögun var tekin upp var miðað við að sjúklingur með staðfestan sjúkdóm sem uppfyllti ákveðin læknisfræðileg skilyrði fengi lyfið sem hann þurfti óháð því hversu margir aðrir sjúklingar voru að taka það. Afleiðingin af breytingunni er hins vegar sú að daginn eftir að kvótinn er uppfylltur á nýr sjúklingur ekki að fá besta fáanlega lyfið við veikindum sínum. Þannig er staðan í dag séu læknar að fara eftir þeim reglum sem heilbrigðisráðuneytið setur, sem maður skyldi ætla að þeir geri.

Skilaboðin í þessu dæmi, sem ég er að gera hér að umtalsefni, eru með öðrum orðum þau að fjárlög ráði lífsbjargandi þjónustu en ekki að þörf fyrir lífsbjargir ráði fjárframlögum. Með sömu rökum ættu læknar að hætta að gera við beinbrot þegar tilteknum fjölda sjúklinga væri náð. Það hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni að gera svo. En öðru máli gegnir þegar um lyf er að ræða; lyf sem eru þó nauðsynleg við alvarlegum sjúkdómum á borð við krabbamein og augnblindu.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um rétt fólks til að njóta fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Þetta er stjórnarskrárvarinn réttur sem er eiginlega fjöreggið í velferðarkerfi okkar og þeirri hugsun sem réð för við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem við búum að í dag. Það er illa komið þegar niðurskurður til opinberra stofnana og áherslu- og stefnuleysi, vil ég meina, í fjárframlögum hins opinbera til velferðarkerfisins er farinn að verða þess valdandi að samfélagið getur ekki virt sín eigin grunngildi, sína eigin löggjöf og stjórnarskrá gagnvart veikum samborgurum sínum. Það er auðvitað með öllu óásættanlegt að læknum sé gert að neita sjúklingum, sem standa frammi fyrir hættulegum sjúkdómum, um þá lyfjagjöf sem væri þeim fyrir bestu vegna þess að of margir hafi fengið lyfið á undan viðkomandi.

Svona er nú komið fyrir heilbrigðiskerfi okkar. Meðal heimilislækna er sáralítil nýliðun og heilsugæslukerfið er afar illa statt. Það er erfitt að fá heimilislækni og lítil stefnufesta sjáanleg í málaflokknum eins og ástatt er. Einkavæðingaráformin, sem ég ræddi hér áðan, eru unnin undir yfirborðinu, bak við tjöldin, án stefnumörkunar eða aðkomu Alþingis. En það lýsir auðvitað miklu skilningsleysi á vanda íslenskrar heilbrigðisþjónustu að halda að hann verði leystur með einkarekstri, sem auk þess stangast á við samfélagslegar áherslur eða þau gildi sem hingað til hafa verið í hávegum höfð og viðurkennd í okkar samfélagi. Þetta er kostnaðarsöm leið sem ekki mun borga sig, hvorki peningalega né samfélagslega.

Opinberar stofnanir, sem hafa haldið uppi góðri þjónustu á miklum erfiðleikatímum, eru ekki að fá tjón sitt bætt eftir hrun. Nú er komið að þolmörkum hjá þeim flestum. Í því er fólgið niðurbrotið, sem ég nefndi áðan, á samfélagslegum stofnunum okkar og sjálfu velferðarkerfinu sem er samfélagsleg auðlind en algerlega vanrækt eins og sakir standa hjá þeirri hægri stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem nú fer með völdin.

Við höfum dæmin allt í kringum okkur. Staða Ríkisútvarpsins er öllum kunn. Sú mikilvæga stofnun hefur verið skilin eftir á berangri markaðsvæðingarinnar með þungar lífeyrisskuldbindingar sem ríkið skildi eftir á stofnuninni áður en það skildi hana eftir í reiðileysi sem opinbert hlutafélag, ohf.

Ég hef áður minnst á Landspítalann sem er ódýr miðað við sambærilega spítala í grannríkjunum. Háskóli Íslands er einn alódýrasti háskóli á Vesturlöndum, miðað við starfsemi og stærð, og nær samt ágætum árangri á alþjóðlegan gæðamælikvarða og mun betri en ýmsir dýrari háskólar. Tryggingastofnun ríkisins er rekin fyrir einungis um þriðjung til fjórðung af kostnaði við systurstofnanirnar á Norðurlöndum. Og svona er þetta víðar í opinbera geiranum. Ísland er ekki með mikil opinber útgjöld á hvern íbúa þegar grannt er skoðað. Raunar talsvert lægri en frændþjóðirnar á Norðurlöndum. Það er þess vegna raunalegt að verða vitni að því þegar þetta fjárlagafrumvarp, eins og það síðasta, er lesið. Það er ekki stuðningur við þessar stofnanir og þær eiga ekki að njóta góðs af þeim bata sem orðinn er í opinberum rekstri. Menntakerfið á í erfiðleikum, það er búið að loka fyrir aðgengi fullorðins fólks að framhaldsskólunum, aðgerð sem lokar möguleikum fyrir fólk, sérstaklega konur á landsbyggðinni, en lokar líka leiðum fyrir þann hóp sem án formlegrar menntunar stendur höllum fæti á vinnumarkaði. Þetta eru hópar sem hefði með réttu átt að styrkja og styðja til þess að auka möguleika fólks á vinnumarkaði með aukinni menntun. Ekki síst núna þegar atvinnulífið er að taka við sér og þetta fólk þarf að eiga tækifæri. En þess í stað hefur ríkisstjórnin búið svo um hnútana að framhaldsskólarnir taka ekki við fullorðnu fólki. Við sjáum þetta á því að almenn fækkun í framhaldsskólunum síðastliðið ár er 6% en í bóknámi 25 ára og eldri er hún 38%. Í framhaldsskólunum hefur nemendum 25 ára og eldri fækkað um 742 einstaklinga milli ára, 447 í bóknámi og um 295 í list- og verknámi. Það eru alvarlegt mál þegar 742 manneskjur flosna upp úr framhaldsskólanámi.

Herra forseti. Við erum með velferðarkerfi í mjög miklum vanda. Og við erum með menntakerfi í alvarlegum þrengingum. Við stöndum líka frammi fyrir alvarlegum atgervisflótta úr landi án þess að nein trúverðug sóknarstefna sé sjáanleg til að stöðva þann landflótta. Og hvað svo með innviðauppbyggingu á borð við uppbyggingu ferðamannastaða eða vegakerfis? Reddingar í fjáraukalögum eru afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á þeim vanda. Engin samgönguáætlun hefur enn litið dagsins ljós þó að komið sé fram á þriðja ár þessa yfirstandandi kjörtímabils. Samt eru samgöngur grundvallaratriði varðandi stöðu landshlutanna og möguleika landsbyggðarinnar til þess að ná vopnum sínum á ný eftir byggðaröskun og viðvarandi fólksflótta undanfarna áratugi og sérstaklega í norðvesturkjördæmi og á Vestfjörðum. Samt liggur vegakerfi landsins undir skemmdum og ágangur ferðamanna á ákveðnum stöðum er svo mikill að náttúruspjöll eru nú þegar orðin sums staðar. En þrátt fyrir þessa stöðu er ferðaþjónustunni sem og útgerðinni hlíft við því að taka þátt í samfélagslegri uppbyggingu, hlaupa undir bagga með öðrum. Veiðigjöldin eru lækkuð svo nemur milljörðum. Samt hefur útgerðin aldrei staðið betur. Með 70–80 milljarða kr. fjármagnsmyndun og á annan tug milljarða sem hún greiðir sjálfri sér í arð. En fær þjóðin sanngjarna arðgreiðslu af fiskveiðiauðlindinni? Nei, ekki meðan Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur ráða ferðinni.

Með þessu fjárlagafrumvarpi er búið vel í haginn fyrir alla þá sem betur mega sín í íslensku samfélagi, stórútgerðina og auðmennina. Skattkerfisbreytingarnar voru gerðar fyrir þá. Afnám auðlegðarskattsins til dæmis. Fólk með 700 þús. kr. á mánuði fær fyrir vikið 12 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur mánaðarlega meðan sá sem er með 300 þús. kr. fær aðeins um 2.000 krónur í auknar ráðstöfunartekjur. Þeir sem enn minna hafa í mánaðarlaun fá ekkert. Bætur almannatrygginga fylgja ekki hækkun lágmarkslauna. Málefni aldraðra eru í mikilli óvissu, til dæmis er engin áætlun um byggingu hjúkrunarheimila og verst er auðvitað staða fátækra eldri borgara.

Til að bíta höfuðið af skömminni hafnar stjórnarmeirihlutinn því að aldraðir og öryrkjar fái kjaraleiðréttingu frá sama tíma og launþegar landsins almennt, þar á meðal alþingismenn sjálfir. Ekki vantaði þó miklar yfirlýsingar, sérstaklega sjálfstæðismanna en einnig framsóknarmanna, fyrir síðustu kosningar. Ekki man ég betur en persónulegt bréf hafi verið sent til hvers einasta eldri borgara í landinu, undirritað af núverandi hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, þar sem lofað var gulli og grænum skógum bara ef menn kysu Sjálfstæðisflokkinn.

Það hefur verið raunalegt fyrir þá sem tóku það bréf trúanlegt að fylgjast með nafnakallinu sem var hér um þá breytingartillögu meiri hlutans að færa öldruðum og öryrkjum leiðréttingu frá sama tíma og aðrir og hlusta á þingmenn stjórnarliðsins, hvern af öðrum, hafna því að aldraðir og öryrkjar með 170 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði fái leiðréttingu sinna kjara frá sama tíma og aðrir.

Nú þegar ríkisbúskapurinn er að vænkast eftir erfiðleikatímana, nú þegar svigrúmið langþráða er komið í fjárlögin og við eigum bæði vannýttar tekjulindir og afgang af fjárlögum, þá hefði siðað samfélag byrjað á því að leiðrétta og bæta hlut þeirra sem verst hafa orðið úti. En ekki ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Hún forgangsraðar í þágu hinna ríku og fáu. Hún notar afganginn til að auka mismunun og innleiða ójöfnuð. Hún afnemur auðlindaskattinn til að hlúa betur að ríka fólkinu. Hún lækkar veiðileyfagjaldið af tillitssemi við útgerðarauðvaldið sem aldrei nokkurn tíma hefur staðið betur og er svo aflögufært að það greiðir sjálfu sér 13 milljarða í hreinan arð af 70–80 milljarða fjármagnsmyndun eins og þegar er nefnt. En aldraðir og öryrkjar mega fara aftast í röðina. Þeir eiga ekkert að fá leiðréttingu frá sama tíma og hinir. Sú málsmeðferð minnir auðvitað óneitanlega á þekkt skáldverk, Animal Farm, þar sem viðkvæði svínanna, sem höfðu náð undirtökum á bóndabænum, var að allir á jörðinni skyldu verða jafnir, bara sumir jafnari en aðrir. Óhjákvæmilega kom þessi tilvitnun upp í hugann þegar maður fylgdist með nafnakallinu átakanlega hér í gær eða fyrradag þegar allir þingmenn, fótgönguliðar stjórnarflokkanna, að vísu að fjarstöddum flestum ráðherrum, neituðu því — sögðu upphátt með eigin röddu nei við því — að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirka leiðréttingu sinna kjara, leiðréttingu sem sömu þingmenn eru þó að fá afturvirkt.

Það er af mörgu að taka, herra forseti. Málefni fatlaðra eru látin reka á reiðanum, sveitarfélögin telja að það vanti rúman milljarð í þann málaflokk. Í breytingartillögum meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið er 600 milljarða kr. lækkun til barnabóta. Það voru nú einmitt barnafjölskyldurnar sem tóku á sig búsifjarnar vegna hækkunar matarskattsins á sínum tíma. Hópurinn sem stendur í húsnæðiskostnaði, ýmist á leigumarkaði eða fasteignamarkaði, þetta er skuldsettur hópur. Ofan á annað tekur ríkið til baka 200 milljarða í vaxtabætur og lætur undir höfuð leggjast að breyta tekjutengingarmörkum. Engar mótvægisaðgerðir þar. Það eru kaldar kveðjur til ungs fólks og barnafjölskyldna.

Minni hluti fjárlaganefndar hefur sýnt fram á í sínu nefndaráliti, sem ég hvet nú sem flesta til að lesa, bæði þingmenn og hlustendur úti í bæ, að enn er svigrúm til að bæta um betur. Með arði af bönkum, auknu skattaeftirliti og veiðigjöldum mætti skapa 14 milljarða til viðbótar inn í fjárlagafrumvarpið og búa betur í haginn fyrir bæði velferðarkerfið og almenning í landinu. En því miður er algerlega ljóst hvar hjartað slær hjá þeirri ríkisstjórn sem nú fer með völd. Forgangsröðunin sýnir það. Það er ólíkt um að svipast í breytingartillögum meiri hlutans en minni hlutans. Tillögur stjórnarandstöðunnar sýna hins vegar að það er mögulegt að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins og nýta bætta afkomu ríkissjóðs á sanngjarnari hátt. Með áherslu á að bæta kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og fjárfestingar í umhverfi og innviðum samfélagsins um land allt; þetta er hægt, það eru til peningar. það eru til tekjustofnar.

Bara svo að ég veki aðeins athygli á tillögum stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd sem er auðvitað studd af öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Þar fer stærsti hluti fjármuna í það að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga sem miða við 300 þús. kr. mánaðarlaun. Og þar er lagt til að Landspítalinn fái fjármuni til að standa undir nauðsynlegri starfsemi. Að barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þús. kr. og barnabætur hækki með hækkun á skerðingarviðmiðum. Minni hluti fjárlaganefndar vill líka gera ráð fyrir hækkun til háskóla og fjármunum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla og styrkja rekstur þeirra. Og eins að gera ráð fyrir fjárframlögum til að taka til varnar fyrir íslenskt mál.

Í tillögum stjórnarandstöðunnar er líka lögð áhersla á fjárfestingar í innviðum og sóknaráætlun landshluta og sérstakt átak lagt til í viðhald og nýframkvæmdir í vegagerð, enda þörfin þar orðin afar brýn. Þar segir líka að til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans skuli gera ráð fyrir auknum fjármunum til fjárfestinga í græna hagkerfinu og til loftslagssjóðs. Að auki eru gerðar tillögur um ýmis brýn réttlætismál, aukin framlög til móttöku flóttamanna, til aukins stuðnings við innflytjendur, til fangelsismála, til baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, til geðheilbrigðismála og til frumkvæðisathugana umboðsmanns Alþingis. Þessar tillögur, sem minni hlutinn hefur lagt fram, eru að fullu fjármagnaðar í sömu tillögugerð með tekjuleiðum sem núna eru van- eða ónýttar af hálfu ríkisstjórnarinnar, svo sem eins og með hærri veiðigjöldum, arði af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bætt skatteftirlit.

Með þessum tillögum stjórnarandstöðunnar er stefnan tekin gegn ójöfnuði og misskiptingu í átt til aukinnar hagsældar sem skiptist á réttlátan hátt. Sú er ábyrgð þeirra sem stjórna að deila byrðum og jafna þær og búa í haginn fyrir almenning í landinu. Það færi betur ef ríkisstjórnin væri sér betur meðvituð um þá ábyrgð en raun ber vitni. Lýk ég máli mínu.