145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var sammála sumu sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni þegar hann talaði um að við þyrftum að breyta, að við værum með ýmis kerfi sem við þyrftum að breyta. Mig undrar hvað við eigum erfitt með að fara í þessi kerfi. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég vona að við berum gæfu til þess að fara í greiðsluþátttökukerfið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal heitinn vann ötullega í, það væru mikil vonbrigði ef það tækist ekki. Ég hef líka furðað mig á því í þingsal að við þingmenn séum ekki nýttir þegar kemur að því að móta stefnu eða taka þátt í einhverjum svona verkefnum, að vísu á það ekki við í akkúrat þessu. En ef við tölum um heilbrigðiskerfi eru gríðarlega miklar áskoranir þar víða. Af hverju eru verkefnin alltaf föst í ráðuneytunum? Af hverju reynum við ekki að ná meiri þverpólitískri sátt um stefnu til framtíðar sem við berum þá öll ábyrgð á? Við erum kosin hingað vegna þess að við höfum skoðanir, en við sitjum svolítið bara í sætunum og bíðum eftir að málin komi og svo erum við að greiða atkvæði. Ég vil nýta þingið betur. Ég vil heyra hvað hv. þingmanni finnst um það.