145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort á að kalla þetta ritúal — og hvernig þýðum við ritúal, helgisið eða siðvenju — sem við erum öll farin að kannast við, við sem höfum setið á þessu kjörtímabili á þingi og á síðasta þingi og á fyrri þingum. Þar sem þingforseti situr þungur og þögull á meðan við óskum eftir því að fá það upp úr honum hve lengi eigi að ræða inn í kvöldið.

Í dag sögðu þingflokksformenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar að þeir gerðu í sjálfu sér ekki athugasemd við það að haldið yrði áfram eitthvað fram á kvöldið umræðu um fjárlögin, það lá fyrir, en vildu gjarnan fá að vita hve lengi það yrði. Svör fengu þeir ekki við þessu, þingflokksformennirnir, og var nú þjarkað í hálftíma, þrjú korter, um málið og ekkert dregið upp úr forseta og síðan greidd atkvæði um málið. Nú er þetta að endurtaka sig og á eftir að endurtaka sig, ég spái því, eftir hverja einustu ræðu þar til þessi svör liggja fyrir.

Þurfa ekki einhverjir að endurskoða vinnubrögðin og gæti verið að hæstv. forseti Alþingis sé þar ekki undanskilið?