145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hér, enn einn stjórnarandstæðingurinn og spyrja: Hvenær hyggst forseti ljúka þessum fundi? Ég heyri að félagar mínir eru mjög sprækir og víla ekki fyrir sér að vera hér inn í nóttina. Ég ætla að segja fyrir mína parta að fjárlagaumræðan er stefnumótandi umræða fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma og í þá umræðu komum við með stóru línurnar í okkar pólitísku áherslu.

Ég kýs nú að taka þátt í slíkri umræðu á eðlilegum vökutíma og fer fram á að við séum ekki að nóttu til í þessari umræðu. Mér finnst það furðulegt, mér finnst það lítilsvirðing við stjórnmál að við tökum ekki meira mark á þeim en svo að okkur finnist það eðlilegt að vera hér í einhverjum næturgalsa að ræða ákvarðanir um útgjöld íslenska ríkisins upp á um 700 milljarða kr.