145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2016. Það er af mörgu að taka í þeim efnum. Ég ætla að hafa smáinngang að máli mínu áður en ég fer í einstaka liði. Við erum í 2. umr. að takast á við fjárlögin sem nú liggja fyrir. Það er ekki eins og þarna séu fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæður en fyrri ríkisstjórn sem tók við í kjölfar efnahagshrunsins. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka sem þurftu því miður að taka á sig skerðingar á síðasta kjörtímabili. Ég hefði haldið að nú væri kominn tími á innviðauppbyggingu í samfélaginu og að tekið yrði virkilega vel á í velferðarkerfinu. En því er ekki fyrir að fara. Þarna eru málaflokkar sveltir, til dæmis varðandi byggða- og sóknaráætlun, stuðningur við brothættar byggðir fellur minnkar, dregið er úr jöfnun námskostnaðar og enn vantar mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað á landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu þó að vissulega hafi verið settir fjármunir í það, en það vantar enn 200–300 millj. kr. á ári til að það sé að fullu jafnað.

Í Framkvæmdasjóð ferðamanna eru settir allt of litlir fjármunir miðað við þá mikla aukningu ferðamanna sem koma til landsins. Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki endanlega saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til að byggja því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir endanlegar heildarlausnir. Nú er hálfnað þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýnilegir í þessi verkefni enn þá.

Vaxtabæturnar eru skornar niður um 1,5 milljarða og barnabætur fylgja ekki verðlagi. Fæðingarorlofssjóður er sveltur. En ríkisstjórnin heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta. Þá spyr maður: Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og ástæður? Verið að vinna gegn þrepaskipta skattkerfinu og leggja það niður í áföngum, sem er annars miklu sanngjarnara gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt endurskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili, eins og bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við aflétt sköttum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda, tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveimur áföngum. En við skulum ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um munaði, úr 7% í 11%. Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenningi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjármuni. Einnig má nefna það mál sem núna er efst á baugi, að laun elli- og örorkulífeyrisþega fylgi launaþróun og taki sömu krónutöluhækkunum og lægstu laun í landinu taka svo þeim sé tryggt öryggi. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æðimörg og bíða úrlausnar.

Við hefðum getað gert ýmislegt við 45 milljarða frá því að þessi ríkisstjórn tók við, sem hún hefur afsalað sér með ýmsum hætti. Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, t.d. að mæta bættum kjörum elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. En þessi ríkisstjórn hefur valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd.

Efst á baugi undanfarið hefur verið það ranglæti að ríkisstjórnin ætlar að skilja aldraða og öryrkja eftir þegar allir aðrir hópar þjóðfélagsins hafa fengið kjarabætur með einum eða öðrum hætti. Meðaltal kjarahækkana á þessu ári er um rúm 14%. Til stendur að hækka ellilífeyri og örorkulífeyri um næstu áramót um 9,7%, en það er auðvitað ekki í neinu samræmi við það sem aðrir hafa fengið og heldur ekki afturvirkt, eins og aðrir hafa fengið, og ætti að vera afturvirkt frá 1. maí og taka sömu hækkunum í krónutölu og lægstu laun í landinu, eða sambærilegt, fram til ársins 2018 þegar lægstu laun í landinu eiga að vera komin upp í 300 þús. kr., sem er nú ekki upphæð sem menn stökkva hæð sína yfir en er þó vissulega árangur. Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin leyfir sér að afvegaleiða umræðuna í þessu máli. Tínt er til að búið sé að bæta kjör þessara hópa svo mikið frá því að ríkisstjórnin tók við. Í því sambandi er allt tínt til og talað um að búið sé að leggja í þennan málaflokk 23 milljarða, að fólk eigin nú bara að vera sátt við það og líða miklu betur með sínar 180–190 þús. kr. á mánuði. Það vita það allir að málaflokkurinn hefur fengið þá upphæð þegar allt er tínt til úr öllum skúmaskotum sem tengist þessum málaflokki. Þær hækkanir sem orðið hafa frá því að þessi ríkisstjórn tók við eru um 17,1%. Það er nú það. Það er þekkt brella að leika sér með tölur og blekkja fram og til baka. Ég þekki það mætavel, ég var í forustu fyrir verkalýðsfélag á Vestfjörðum í 16 ár. Það var kunnur leikur hjá atvinnurekendum að blekkja okkur sem sátum þeim megin við borðið með alls kyns talnaflóði og að meðaltali ættum við að hafa það bara ljómandi gott. En staðreyndir málsins eru bestar og það verður auðvitað að ræða þessa hluti á mannamáli svo allir skilji og horfa á hve þessi laun — eða bætur, ég kalla þetta laun, þetta eru laun þess fólks sem býr við örorku og laun þess fólks sem er orðið 67 ára og eldra — eru ekki okkur til sóma, þessu þjóðfélagi sem er með þeim ríkustu í heimi. Þó að við höfum orðið fyrir miklu áfalli fyrir sjö árum erum við aftur að ná fótfestu og höfum vissulega efni á að gera vel við þessa hópa og láta þá ekki dragast aftur úr eða láta tekjuskiptingu og misskiptingu í samfélaginu aukast eins og nú stefnir í.

Þessi leikur að tölum er ljótur leikur. Það er okkur ekki til sóma að menn leiki sér svo með þessi mál þegar þessir stóru hópar eiga í hlut. Þeir hafa líka svarað fyrir sig í þeim efnum. Þar stendur orð á móti orði en staðreyndirnar tala líka sínu máli. Talsmenn eldri borgara og öryrkja telja að sú 3% hækkun sem varð í janúar 2015 sé leiðrétting vegna ársins 2014 og að eigi ekki að reikna það sem hluta af kjarabótunum 1. janúar 2016. Þau benda enn fremur á að of margir sem lægstar tekjurnar hafa séu fastir í fátæktargildru, sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um framlög eða milljarða er í raun ekki aðalatriðið heldur að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af þessum tekjum. Við skulum ætíð muna það að á bak við tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa hundruð þúsunda á mánuði.

Tekjuskattsbreytingar sem þessi ríkisstjórn hefur gert hafa heldur ekki komið þessum hópum til góða. Ef lækkun á fyrsta skattþrepi hefði verið 1,4% í stað þess að lækka annað þrepið, hefði það skilað hópum með allra lægstu tekjurnar tæpum 3 þús. kr. Í stað þess fékk sá hópur einungis 500 kr., sem gera tæpar 6 þús. kr. á ári, en hefði orðið um 36 þús. kr. Þetta lýsir vel áherslum þessarar ríkisstjórnar, að leiðrétta ekki eða breyta prósentuhlutfallinu í lægsta þrepinu, heldur hræra til í efri þrepum hjá þeim sem efnameiri eru. Mikið hefur verið talað um hvað fyrri ríkisstjórn hafi nú verið vond og barið á öryrkjum og það sett í þann búning að fyrri ríkisstjórn hefði af meinfýsni og mannvonsku skert kjör eldri borgara og öryrkja í þessu landi. Nei, það var nú síður en svo. Grípa þurfti til mjög erfiðra aðgerða á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þeim sem bjuggu eingöngu við grunnframfærslu elli- og örorkulífeyris var hlíft. Sá lífeyrir var ekki skertur heldur varinn, við skulum halda því til haga. En vissulega voru skerðingar á þá sem höfðu atvinnutekjur auk örorkulífeyris eða ellilífeyris og lífeyristekjur voru skertar. En grunnlífeyrir hélt sér svo hann var varinn á þessum erfiðu árum eftir hrun. Hann var rúmar 190 þús. kr. og hækkaði í þrepum upp í um 213 þús. kr. Því skal haldið til haga. Einnig hefur verið komið inn á það hér að fyrri ríkisstjórn hafi ... (VigH: Skorið allt niður eins og hægt var.) framkvæmt hækkanir hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum þegar launahækkanir voru á almenna markaðnum árið 2011. En þá hækkaði ríkisstjórnin bætur 1. júní árið 2011 (Gripið fram í.) í samræmi við krónutöluhækkun kjarasamninga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Það er gott að heyra að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er loksins farin að meðtaka þann boðskap. (VigH: Skerðingarnar ykkar, já.) Nokkuð sem núverandi ríkisstjórn er að svíkja, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. (Gripið fram í.) Það eru staðreyndir málsins. Við skulum venja okkur á að fara með sannleikann því að hann er sagna bestur. (Gripið fram í.) Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og hægt er að skoða. Eldri borgarar og öryrkjar hafa sent út fréttir þar sem það er undirstrikað. Ég vísa til samantektar sem ég fann á netinu, með leyfi forseta, sem er opið bréf frá öryrkja til stjórnarþingmanna þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Það er ljótt að ljúga og blekkja eins og þið gerið.“

Með leyfi forseta stendur síðan í bréfinu:

„Síðan eru það hreinar og klárar lygar að bætur almannatrygginga hafi hækkað um 17,1% frá árinu 2014, því að það kemur alveg skýrt fram í útreikningum ÖBÍ að í janúar 2013 hækkuðu bætur um 3,9%, (vinstri stjórnin var þá enn við völd). 1. janúar 2014 hækkuðu þær um 3,6% og í janúar 2015 um 3%. Þetta gerir þá í tíð núverandi ríkisstjórnar aðeins 6,6% hækkun en ef við tökum frá 2013, þá er hækkunin 10,5%.“

Þetta eru bara staðreyndir sem stjórnarþingmenn ættu að kynna sér og hætta að fara með rangt mál í þessum efnum.

Það er sárt til þess að vita að stjórnarmeirihlutinn telur sig vera þess umkominn að hunsa allar þessar staðreyndir og hrekur fólk sem ber þær fram, og vænir það um að fara með rangt mál. Hann heldur endalaust uppi svo ömurlegum málflutningi þegar við vitum að takast þurfti á við afleiðingar hrunsins sem snerti alla og enginn komst hjá því að finna fyrir með einhverjum hætti. Þá segir stjórnarmeirihlutinn að þess vegna þurfi núverandi ríkisstjórn ekki að bæta kjör þessa hóps og réttlætir eigin gjörðir með því að hér hafi orðið hrun og að allir hafi þurft að sitja uppi með afleiðingar þess. Maður hugsar: Að fólk geti virkilega lækkað hér veiðigjöldin um 7 milljarða frá því að þessi ríkisstjórn tók við, svo maður fari nú bara fínt í það. Það er rúmlega sú upphæð sem þyrfti til þess að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirkar hækkanir eins og aðrir þjóðfélagshópar frá 1. maí á þessu ári. Hvernig geta menn tekið svona ákvarðanir án þess að hafa samviskubit? En þetta er nú bara veruleikinn. Þetta er hægri stjórn. Hún forgangsraðar með þessum hætti til þeirra efnameiri og þeirra sem meira hafa, hvort sem eru einstaklingar eða stórfyrirtæki, stórútgerðir. Forgangsröðun hennar er að vera búin að afsala sér sköttum upp á 44 milljarða frá því að hún tók við. Það er sorglegra en tárum taki því að ýmislegt hefði verið hægt að gera við alla þessa fjármuni. Það var meiningin hjá fyrri ríkisstjórn, sem liggur í öllu því sem hún skildi eftir sig, (VigH: Að setja ...) að setja fjármuni í uppbyggingu innviða samfélagsins, velferðarkerfi, Landspítalann, samgöngur, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega, þegar efnahagur batnaði. Svo tekur þessi ríkisstjórn við með hnefann á lofti og ber niður alla samfélagslega uppbyggingu og vinnur gegn því (Gripið fram í.) að batnandi efnahagur skili sér til allrar þjóðarinnar, hann skilar sér bara til sumra. Haldið er áfram á sömu braut og við höfum verið að horfa upp á síðustu áratugi þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa stýrt þjóðfélaginu. Það er að gliðna í sundur. Stéttaskipting er að verða til, sem maður hefði aldrei trúað að yrði hér á litla Íslandi. Þeir fátækari verða fátækari og þeir ríku ríkari. Það er nú ekki flóknara en það. Maður þarf ekki alltaf að skreyta mál sitt í þeim efnum heldur er bara verið að tala um að fátækir verða fátækari og þeir ríku ríkari. Og hópar eins og aldraðir og öryrkjar eru festir í fátæktargildru, sem er ömurlegt.

Ég vil næst koma inn á þá ákvörðun sem endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu, að skera niður nemendaígildi til framhaldsskóla. Það bitnar mjög illa á framhaldsskólunum úti um land og kemur sérstaklega illa við íbúa landsbyggðarinnar, þ.e. að meina 25 ára og eldri inngöngu í bóknám framhaldsskólanna. Það hefur skilað sér alveg ótrúlega fljótt í háum tölum nemenda sem hrakist hafa frá námi. Frá því að sú ákvörðun var tekin hefur fækkað í framhaldsskólum um 742 nemendur milli áranna 2014 og 2015. Af þeim eru um 400 í bóknámi og 242 í verknámi og öðrum iðngreinum. Það er sláandi og sýnir afleiðingar þess sem við í stjórnarandstöðunni vöruðum við og sem stjórnendur framhaldsskólanna vöruðu við. Framhaldsskólarnir hafa verið að byggja upp metnaðarfullt nám, fjarnám, staðbundið nám, dreifnám. Allt hefur það spilað vel saman. Þegar þeir fá það högg að skera þurfi niður og fækka nemendaígildum þannig að þeir geta ekki tekið nemendur 25 ára og eldri í bóknám, hefur það sínar afleiðingar og stendur skólunum fyrir þrifum. Hliðarverkanirnar eru þær að fjarnámið veikist, verknámið veikist og skólarnir eiga miklu erfiðara með að bjóða upp á fjölbreytt nám. Afleiðingin er veiking byggðanna. Fólk sem hafði ætlað að fara aftur í nám, sem hefur tímabundið ekki getað haldið áfram og lokið framhaldsnámi af einhverjum orsökum eins og gerist og gengur, hefur ekki möguleika á því nema flytja úr heimabyggð sinni og sækja dýrt nám í einkaskólum í höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi kostnaði. Það hafa ekki allir fjármuni til að rífa sig upp frá sinni heimabyggð, að vera kannski búnir að stofna fjölskyldu og ætla að leigja húsnæði, sem liggur nú ekki á lausu á höfuðborgarsvæðinu og er rándýrt, og borga auk þess einkaskóla fyrir að geta lokið framhaldsnámi í heimabyggð sinni. En það er nú bara veruleikinn sem blasir við.

Af því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gengur hér í sal verð ég að segja að ég skil ekki hvernig þingmenn landsbyggðarinnar geta látið bjóða sér þetta. Ég skil það bara ekki. Á síðasta kjörtímabili mátti ekki anda, þá hrukku menn upp af standinum í himinhrópandi vandlætingu yfir því að verið væri að gera rangt hér og rangt þar. En núna þegar efnahagur hefur vænkast og ég mundi halda að landsbyggðarþingmennirnir mundu berjast fyrir að fá fjármuni út á land þá virðast þeir láta allt yfir sig ganga. En til þess að reyna að halda andlitinu hefur þeim tekist að ná einhverjum smáaurum inn í breytingartillögur til að reyna að lina þjáningar þeirra kjósenda sem eftir eru í kjördæmum þeirra.

Ég trúi því ekki að menn ætli ekki að reyna að gera breytingar á þessu og stöðva aðförina að framhaldsskólum í landinu, að hefta 25 ára og eldri í að sækja nám í heimabyggð sinni. Þetta er nú það fólk, sem klárað hefur framhaldsnám þótt það sé orðið 25 ára og haldið svo áfram svo í háskóla í fjarnámi, sem hefur byggt sig upp á þessum stöðum. Það hefur orðið til þess að búseta hefur styrkst. Það fólk hefur oftar en ekki farið í kennaranám og hjúkrunarfræði, svo eitthvað sé nefnt. Fjöldinn allur hefur lokið námi vegna þess að fólki bauðst að halda áfram í skóla og búa áfram í sinni heimabyggð og hefur það skilað sér gífurlega vel út á land. Ég held að allir viti það, að það þurfi ekki að segja fólki það. En ætla menn virkilega að koma í veg fyrir möguleika þessa fólks þannig að þetta snúist allt á verri veg í framhaldinu? Ætla menn ekki að hlusta á stjórnendur framhaldsskóla eða landshlutasamtökin eða neina sem varað hafa við alvarlegum afleiðingum svo mikils niðurskurður gagnvart framhaldsskólunum varðandi nemendaígildin?

Það var svolítið kómískt í gær þegar hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði að ekki væri hægt að setja mikla fjármuni í samgöngumálin því að ríkið hefði þurft að leggja til svo háa fjármuni í launahækkanir, 33 milljarða. Eiga þá samgöngur í landinu að vera sveltar ef ríkið þarf að leggja til fjármuni í launahækkanir eins og aðilar á almennum vinnumarkaði? Eigum við von á því að það verði eitthvert kropp hér út og suður, eins og þessi tíningur sem er í breytingartillögunum? Hvenær eiga menn von á samgönguáætlun? Eiga menn ekki von á að lögð verði fram samgönguáætlun með einhverjum metnaði fyrir landið? Við fáum hingað til lands gífurlegan fjölda ferðamanna sem skapar líka miklar gjaldeyristekjur, 340 milljarða að minnsta kosti. Væri ekki rétt að horfa á það í því samhengi fremur en að væla yfir launahækkunum ríkisins og segja að þess vegna geti menn ekki farið út í uppbyggingu samgangna í landinu, að horfa frekar á þær miklu tekjur sem koma af auknum fjölda ferðamanna og nýta í þann málaflokk? Það er líka mjög hraklegt að horfa til þess hvernig Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er sveltur og svo er slett í hann einhverjum fjármunum til að bæta úr, en allt of seint þannig að þeir sem þurfa að undirbúa sig og sækja um og skipuleggja á vegum sveitarfélaga og allt það sem því fylgir geta ekki einu sinni nýtt sér þessa fjármuni. Ríkisstjórnin er með allt niður um sig hvað varðar samgöngumál. Þess vegna þótti mér með ólíkindum þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason belgdi sig út hér í gær og lét eins og verið væri að leggja fram einhver landsbyggðarfjárlög. Það er auðvitað ekki hægt að tala um það þannig. Menn geta kannski talað þannig án þess að innihald eða innstæða sé fyrir því. En fjárlögin sjálf og tölurnar segja sína sögu. Það þarf ekki frekar vitnanna við. Keisarinn er ekki í neinum fötum,

Það er svolítið skondið að í fjárlagafrumvarpinu, í lið 672 Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta, stendur:

„Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækki um 516,5 millj. kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs.“

Þarna er niðurskurður. Svo koma riddarar landsbyggðarinnar, hv. þingmenn í fjárlaganefnd, og leggja til í breytingartillögum að í þennan sama lið fari 400 millj. kr.

„Gerð er tillaga um 400 milljóna króna tímabundið framlag til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir uppbyggingu á flugvöllum á landsbyggðinni og rekstur innanlandsflugs.“

(VigH: Geri aðrir betur.) Já, það gera aðrir betur, það er nefnilega það. Það gera aðrir miklu betur. (VigH: Ekki þið.) Við höfum bara ekki tækifæri til þess. En það gera aðrir betur, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, það er nefnilega það góða. Þarna rataðist hv. þingmanni satt orð á munn. Þarna fá menn að draga með töngum 400 millj. kr. og ná ekki einu sinni þessum niðurskurði, það munar 100 millj. kr. Sama er að segja um aðra liði eins og Hafnabótasjóð. Breytingartillögurnar hljóða upp á um 400 millj. kr. sem er listi yfir og auðvitað munar þá um það sem þarna fá sitt lítið af hvoru og þeir eru þakklátir. En það liggur engin samgönguáætlun fyrir, þetta eru bara reddingar út og suður. Slík vinnubrögð eiga ekki að líðast. Það á að vinna eftir faglegum ferlum og samgönguáætlun, það á að koma myndarlega fram í fjárlögunum í upphafi en ekki í einhverjum reddingum vegna þess að eðlilega koma sveitarstjórnir með betlistaf og biðja um eitthvað til að bjarga hlutunum. Þá koma þingmenn hér og berja sér á brjóst og láta eins og þeir séu að bjarga landsbyggðinni og leggi svo mikið til uppbyggingar hennar, en í raun og veru eru þetta bara skítareddingar, fyrirgefið orðbragðið. Einhverjar 235 millj. kr. fara til Vegagerðarinnar, 400 millj. kr. í hafnarframkvæmdir. Það vita margir hvað bara einn kílómetri kostar, og ég veit ekki hvað þessar 235 millj. kr. eiga að duga sem fara í vegaframkvæmdir. Tímabundið framlag til vegagerðar í dreifðum byggðum, ég veit ekki hvað það dugar á marga kílómetra. Þessar 400 millj. kr. duga auðvitað ekki til neinna stórframkvæmda.

Svo er það Fjarskiptasjóður. Vissulega er ég ánægð með að fá þarna 200 millj. kr. aukalega inn í fjarskiptasjóð. Ég ætla ekkert að segja annað en það. (VigH: Nú, jæja.) (Gripið fram í.) Til að gleðja hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem enn eru þó eftir hér á þingi. (VigH: Við erum nítján.) Þið verðið það nú ekki lengur en fram að næsta kjörtímabili. (VigH: En í föðurlandinu?) (GÞÞ: Hvernig mælist þið?) Við mælumst bara ágætlega, Vinstri – græn og eigum eftir að mælast enn betur. (Gripið fram í.) Sá hlær best sem síðast hlær. En menn láta líka eins og búið sé að klára að hringtengja og ljósleiðaravæða landið. Með þeirri skýrslu sem var gerð af hálfu innanríkisráðuneytisins voru settar fram áætlanir sem kosta 6,2 milljarða. Talað hefur verið um 6,2–6,6 milljarða, eitthvað rúma 6 milljarða. Það er einsskiptisaðgerð að bæta við 200 millj. kr. Ef það hefðu verið 300 millj. kr. á ári hefði þetta verkefni tekið fjölda ára. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga talaði um að það mundi þá klárast um 2040. Ætli hann hafi nú alveg farið með nákvæmt ártal? Við getum reiknað það út í rólegheitum á eftir.

Gott og vel. Ef það koma 500 millj. kr. á ári framvegis ætti tíminn sem það tekur að ljúka þessu verkefni eitthvað að styttast. En auðvitað ætti að ljúka því bara á næstu fjórum árum. Þessi svæði hafa ekki þolinmæði til að bíða í 10–20 ár. (VigH: Hver er að tala um það?) Miðað við það fjármagn sem þarna er og hvað það kostar þá lítur út fyrir það. En ég ætla að segja eins og ég sagði áðan, svo ég sýni nú einhvern fögnuð í ræðustól, að ég fagna þessum 200 millj. kr. Það er bót í máli að þær komi þarna inn.

Ég vil í lokin nefna jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu. Mér leiðist alveg óskaplega hvernig hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur talað í þeim efnum. Hann hefur talað eins og búið sé að ljúka jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Það er bara ekki satt. Varla lýgur þetta fjárlagafrumvarp hérna sem segir að það vanti hundruð milljóna til að jafna húshitunarkostnað, bæði varðandi niðurgreiðslu á húshitun og jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Ef ég gríp niður í frumvarpið, með leyfi forseta, segir þar um niðurgreiðslu húshitunar:

„Í fjárlögum fyrir árið 2015 er áætlað að af liðnum 04-583 Niðurgreiðslur á húshitun fari um 1.034 millj. kr. til þessa hóps en það jafngildir því að 80–83% kostnaðarins við dreifinguna séu niðurgreidd. […] Samkvæmt áætlunum Orkustofnunar er gert ráð fyrir að hækka þurfi framlögin vegna þessa þáttar um ríflega 153 millj. kr. frá því sem nú er svo að flutningur og dreifing við beina rafhitun verði niðurgreidd að fullu.“

Svo er talað um hér fyrir neðan:

„Samkvæmt áætlunum Orkustofnunar er gert ráð fyrir að hækka þurfi niðurgreiðslurnar vegna þessa þáttar um 62 millj. kr. til samræmis við breytingar á niðurgreiðslum til beinnar rafhitunar.“

Varðandi jöfnun kostnaðar við dreifingu (Forseti hringir.) er talað um að samkvæmt því þurfi að hækka framlag til liðarins um 65 millj. kr. á ári til að unnt verði að jafna að fullu kostnað við dreifingu raforku.

Svo það eru bara staðreyndir málsins (Forseti hringir.) sem menn verða að kyngja og ég vildi að þetta mundi ganga miklu hraðar fyrir sig.