145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og gæti auðvitað ekki verið meira sammála en það er líka áhugavert að heyra hv. þingmann fjalla um þetta af þeirri þekkingu sem hún gerir. Mér fannst sömuleiðis mjög áhrifaríkt ýmislegt sem kom fram hjá mörgum gestum okkar í morgun og hefur gert á fyrri stigum varðandi stuðning við börn og fjölskyldur þeirra og mikilvægi þess að taka þennan málaflokk upp á yfirborðið, fjarlægja tabúin, brjóta niður múrana eða hvernig við viljum orða það. Ugglaust er þá fræðsla og átak af því tagi sem þarna er undir mjög vænlegur liður. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það hefur náðst nokkur árangur í að opna umræðuna um þessi mál og maður bindur vonir við hluti eins og framkvæmdaáætlunina.

Sú tilfinning sem ég hef fengið er að til baka litið hafi þetta verið vanræktur málaflokkur á Íslandi og við höfum alls ekki staðið okkur sem skyldi í þessum efnum. Það er eiginlega óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu. Það hafa allt of margir fallið á milli kerfa og við vorum minnt á þá staðreynd í morgun að bráðnauðsynlegri starfsemi og þjónustu á þessu sviði og við fólk sem á erfitt er haldið uppi af sjálfboðaliðasamtökum sem fá sáralítinn eða nánast engan stuðning frá hinu opinbera, en eru kannski á köflum að sinna einhverju allra mikilvægasta starfinu sem er að vera til staðar fyrir fólk þegar erfiðleikar berja að dyrum, vera með opinn faðminn þannig að menn treysti sér til að leita til þeirra. Það er ekki alltaf eins auðvelt að snúa sér til kerfisins. Það er spurning sem leitar auðvitað á mann hvort við ættum ekki líka að skoða að ráðstafa einhverjum fjárstuðningi til slíkra aðila sem eru (Forseti hringir.) kannski í betri færum við að veita þessa fyrstu hjálp eða nærsamfélagshjálp.