145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þróttmikla ræðu, það hvernig hv. þingmaður fór yfir málin og sérstaklega hvernig hún reifaði stöðuna eins og hún var 2009. Hún er náttúrlega ekki sú sama nú og þá. Það sér hvert mannsbarn. Kosningarnar 2009 eru fyrstu kosningarnar sem ég hafði kosningarrétt. Ég hafði aldrei kosið áður. Það eina sem mér datt í hug að kjósa var ekki gamla báknið. Það voru mikil umbrot og það sá meira að segja 19 ára unglingur sem var rétt að komast til vits og ára.

Hins vegar þótti mér áhugavert að heyra í ræðu hv. þingmanns að hún teldi annan valmöguleika til staðar en ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Mig langar til að vita hvaða annan valmöguleika hún sjái núna í kortunum. Þurfum við að bíða annarra kosninga eða hvað getur eiginlega orðið til þess að einhver annar valmöguleiki komi fram? Núverandi ástand, sérstaklega í fjárlagaumræðunni, er alveg út í hött. Hjá þeim ríkustu er verið að skera niður skattana sem þeir ættu að greiða til samfélagsins og á meðan eykst skattbyrði hjá þeim sem minna mega sín, svo ekki sé minnst á háskólanema. Gjöldin þar hafa hækkað og ekki fara þau öll til Háskóla Íslands.

Ég spyr: Hver er þessi annar valmöguleiki? Hvert eigum við að horfa?